Opinberir styrkir til stjórnmálaflokkanna í núverandi mynd styðja ekki við lýðræðislega virkni í þjóðfélaginu heldur stuðla þeir beinlínis að afskræmingu stjórnmálaflokkanna og grafa undan lýðræðinu, skrifar Björn Jón Bragason í vikulegum pistli sínum, Af þingpöllunum, á Eyjunni.
Björn Jón vitnar í talnaefni sem Brynjólfur Gauti Guðrúnar Jónsson, doktorsnemi í tölfræði, birti nýlega á vefsvæði sínu, Meitli. Efnið er unnið upp úr ársreikningum stjórnmálaflokkanna og sýnir glögglega að stóraukinn ríkisstyrkur til flokkanna á síðustu árum hefur ekki leitt af sér meiri umsvif þeirra því útgjöld til rekstrar hafa lítið aukist. „Ríkisstyrkinn hafa flokkarnir notað þess í stað til að byggja upp sjóði sína. Þannig batnaði fjárhagsstaða allra flokka umtalsvert á árunum 2007 til 2020 ef Sjálfstæðisflokkurinn er undanskilinn, en hann gekk á eigið fé sitt á umræddu tímabili,“ skrifar Björn Jón.
Niðurstaða Brynjólfs Gauta er sú styrkirnir séu að mestu nýttir í stærri og fleiri kosningaauglýsingar í aðdraganda kosninga.
Í ársreikningi Flokks fólksins fyrir árið 2021, sem er nýjasti reikningur flokksins sem skilað hefur verið til Ríkisendurskoðunar, kemur fram að ríkisstyrkir námu tæplega 69 milljónum en félagsgjöld einungis tæpum 400 þúsundum, eða vel innan við 1% af heildartekjum.
Nýjasti reikningur Pírata, sem finna má á heimasíðu Ríkisendurskoðunar, sýnir að styrkir frá hinu opinbera námu tæplega 86 milljónum en félagsgjöld og styrkir frá einstaklingum einungis rösklega 1,7 milljónum, eða innan við 2%.
Björn Jón varpar fram þeirri spurningu hversu trúverðugir stjórnmálaflokkar séu í umræðu um vandvirkni, gegnsæi og fagmennsku þegar þeir virða sjálfir ekki einföldustu reglur um skil á ársreikningi en einungis þrír flokkar skiluðu reikningum sínum á réttum tíma til Ríkisendurskoðunar í fyrra; Miðflokkur, Sósíalistaflokkur og Vinstri grænir. „Flokkarnir komast því ekki einasta upp með að skammta sjálfum sér milljarða af almannafé heldur láta þeir eins almenningi komi varla við hvernig þessum fjármunum er ráðstafað,“ skrifar Björn Jón.
Hann telur að opna verði bókhald flokkanna þannig að hægt verði að sjá öll útgjöld – það sé sanngjörn krafa eigi skattgreiðendur að standa straum af kostnaði við rekstur þeirra. Björn Jón bendir á að almenningur sem stundi rekstur sé beittur þungum viðurlögum skili hann ekki þeim reikningum sem honum ber til skattyfirvalda eða vanvirði á einhvern hátt þær reglur sem gilda. Stjórnmálaflokkar telji sig yfir þetta hafnir.
Björn Jón gerir samanburð við reglur í öðrum löndum og nefnir sem dæmi að í Þýskalandi megi opinberir styrkir til stjórnmálaflokka ekki nema hærri upphæð en sem samsvari sjálfsaflafé þeirra og þar er einkum um að ræða félagsgjöld almennra félaga – síður styrki frá fyrirtækjum.
Í Þýskalandi eru einnig miklar hömlur á ráðstöfun opinberra styrkja til flokkanna; meðal annars sé gert ráð fyrir útgáfustarfi og rannsóknum á hugmyndafræði, en til hliðar við þýsku flokkana starfi sérstakar rannsóknarstofnanir. „Hér á landi eru ekki skilyrði af þessu tagi og flokkar komast upp með að verja stærstum hluta ríkisstyrksins í auglýsingaskrum rétt í aðdraganda kosninga.“
Björn Jón segir stöðuna hér öldungis óboðlega. Takmarka þurfi opinbera styrki við flokkana og gera kröfu um að þeir verji fjármunum af opinberum styrkjum til rannsókna, útgáfustarfs og málefnavinnu, auk þess sem opna verði bókhald þeirra upp á gátt. Þetta sé ekki síst mikilvægt í ljósi þess að í sumum flokkum skorti beinlínis lýðræðislegt aðhald; jafnvel séu engir fundir haldnir. „Ég hef heyrt dæmi þess að félagsmönnum í stjórnmálafélagi hafi verið neitað um nánari útskýringar á reikningum síns flokks þegar grunur vaknaði um að ekki væri allt með felldu varðandi ráðstöfun fjármuna — sem vel að merkja voru peningar skattgreiðenda,“ skrifar Björn Jón.
Af Þingpöllunum í heild má lesa hér.