Halldór Halldórsson, atvinnurekandi og fyrrverandi sveitarstjóri og borgarfulltrúi, greinir mótsagnir í stefnu og athöfnum stjórnvalda varðandi orkuskipti. Á sama tíma og ríkisstjórnin stefnir að því að útrýma olíunotkun sé nánast gert ókleift að virkja fyrir rafmagni. Þetta kemur fram í aðsendri grein Halldórs í Morgunblaðinu í dag.
Halldór dregur fram að ríkisstjórnin stefnir að útfösun jarðefnaeldsneytis árið 2040 en um þetta segir í stjórnarsáttmálanum:
„Lögð verður fram þingsályktun um orkuskipti og útfösun jarðefnaeldsneytis, þar sem settar verða fram aðgerðir og grunnur lagður að því að fullum orkuskiptum verði náð eigi síðar en 2040 og Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða.“
Halldór segir að ríkisstjórnin hljóti að stressast yfir tilhugsunin um að aðeins séu 17 ár í þessi orkuskipti, miðað við stöðu mála núna. Skrifræði valdi því að nær ómögulegt sé að virkja fyrir rafmagni:
„Það er auðvelt að ímynda sér að þegar ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnarmeirihlutans lesa þetta (sem þeim ber að gera reglulega) stressist þau verulega upp því það eru rétt 17 ár í að Ísland eigi að vera laust við olíunotkun. Ástæðan fyrir reglulegu stresskasti er auðvitað sú að það er búið að byggja upp þvílíkt skrifræðiskerfi á Íslandi varðandi orkuöflun að nánast vonlaust er að virkja okkar umhverfisvænu vatnsöfl en virkjun þeirra er jú eina leiðin til að losna við alla þessa olíu eigi síðar en árið 2040, fyrst þjóða. Hin ástæðan er sú að hluti pólitískt kjörinna fulltrúa kærir sig ekkert um að nýta endurnýjanlega íslenska orkugjafa og fer að fabúlera um að hægt sé að gera þetta einhvern veginn öðruvísi án þess að útskýra það eða rökstyðja með sannfærandi hætti.“
Halldór segir þjóðina vera að glíma við þversagnir í þessum málaflokki. Á sama tíma og ríkisstjórnin lýsi yfir vilja til orkusipta og grænnar orkuframleiðslu sé hluti hennar á móti því að virkja. Tala þurfi skýrt um þessi mál:
„Við eigum óteljandi kosti á að verja svæði sem við ætlum ekki að nýta til orkuöflunar, það er náttúruvernd og við Íslendingar erum góð í náttúruvernd. En um leið er fjöldi svæða tilvalinn til orkuöflunar. Staðan er nefnilega sú að við framleiðum 20 teravattstundir af rafmagni á ári hér á Íslandi en til að gera stefnu ríkisstjórnarinnar að veruleika þarf að framleiða 16 teravattstundir til viðbótar árlega til að ná fullum orkuskiptum. Næstum jafnmikið og við framleiðum í dag. Og við höfum 17 ár til þess.“