Ólga er meðal foreldrar leikskólabarna í Kópavogi eftir að ný gjaldskrá var birt, en í henni felast töluverðar hækkanir fyrir þá sem ekki hafa tök á því að nýta sér aðeins sex dvalarstundir eða minna á dag fyrir börn sín. Með breytingunni er Kópavogsbær nú með dýrustu leikskólanna á höfuðborgarsvæðinu. Eins munu afslættir til námsmanna, öryrkja og einstæðra falla niður um áramót og tekjutendur afsláttur tekinn upp í staðinn.
Það heyrði til tíðinda þegar Kópavogsbær boðaði breytingar á gjaldskrá leikskóla í sveitarfélaginu. Voru breytingarnar kynntar sem jákvætt skref, en nú yrði boðið upp á sex gjaldfrjálsa tíma, eða eins og það var orðað í tilkynningu á vef Kópavogs „sex tíma dvöl eða skemmri verður gjaldfrjáls, en áfram verður greitt fæðisgjald.“
Dvalargjöld umfram sex tíma myndu á móti taka hækkunum sem færu stigvaxandi með auknum dvalartíma, en komið yrði til móts við tekjulág heimili með tekjutengdum afslætti. Eins stæði foreldrum til boða að hafa dvalartíma breytilegan eftir vikudögum sem ætti að auðvelda þeim að skipuleggja styttri dvalartíma. Þessar breytingar tækju gildi 1. september.
Foreldrum var svo beint á sérstaka upplýsingasíðu sem Kópavogur kom á fót þar sem mátti finna algengar spurningar og svör við þeim.
Vísir greinir frá því nú í kvöld að mikil ólga sé meðal foreldra vegna þessara breytinga, en gjaldskráin hafi hækkað um tugi prósenta og hafi leikskólar í Kópavogi farið frá því að vera þeir ódýrustu á höfuðborgarsvæðinu í þá dýrustu. Ekki var bæjarstjóri tilbúinn að veita nákvæm svör við gagnrýninni heldur vísaði í áðurnefnda upplýsingasíðu.
Samkvæmt nýrri gjaldskrá er ekkert dvalargjald fyrir fyrstu sex dvalarstundirnar, en þó þarf að greiða fyrir hressingu og hádegismat, samtals 10.462 krónur. Þá kárnar gamnið því fyrir 6,5 dvalarstundir er kostnaður með fullu fæði 34.616 kr., fyrir 8 stundir er það 49.474 kr. og fyrir hámarksdvöl, 9 stundir, þarf að greiða 77.474.
Boðið er upp á tekjutengdan afslátt sem nemur 40% af dvalargjöldum. Afslættir sem áður hafa staðið til boða til einstæðra foreldra, námsmanna- ef báðir foreldrar eru í fullu námi- og öryrkja verður áfram í boði, en bara til áramóta en þá fellur afslátturinn niður.
Hvað varðar tekjutengdan afslátt þá eru tekjuviðmið fyrir einstæða foreldra/forsjáraðila 750 þúsund á mánuði, en 980 þúsund fyrir sambúðarfólk. En frá og með áramótunum verður þetta eini afslátturinn sem stendur til boða, fyrir utan systkinaafslátt sem helst óbreyttur.
Samkvæmt upplýsingavef um breytingarnar er markmið þeirra að tryggja áframhaldandi uppbyggingu leikskólastarfsins, með tilliti til breytinga á rými barna og starfsfólks og fækkun barna á hvern starfsmanns. Tekið er fram að gjaldskrárhækkanir hafi ekki haldið í við vísitöluhækkanir en miðað við að leikskólagjöld fyrir 8 tíma dvöl með fæði hafi verið tæpar 30 þúsund árið 2003 ætti uppreiknað verð í dag að nema 95 þúsund.
Samkvæmt lauslegri skoðun á þeim ummælum sem hafa fallið á samfélagsmiðlum um þessar breytingar hafa foreldrar meðal annars greint frá því að hafa fyrst tekið breytingunum fagnandi, enda mikill kostur fyrir þá foreldra sem tök hafa á, að eiga kost á gjaldfrjálsum sex tímum á dag. Það hafi þó ekki hvarflað að þeim að þessi breyting myndi þýða gífurlega hækkun fyrir þá foreldra sem ekki hafa tök á því að stytta dvalartíma barna sinna. Eins sé ljóst að tekjutengdi afslátturinn á eftir að nýtast verr heldur en það kerfi sem áður var í gildi. Í raun sé þetta töluvert ósanngjarnt því líta megi svo á að þeir sem þurfa lengri dvalartíma fyrir börn sín séu í raun látnir borga brúsann fyrir þá foreldra sem hafa tök á að hafa börn sín aðeins í sex tíma á dag á leikskóla.
Hafa sumir haldið því fram að Kópavogsbær hafi tilkynnt breytingarnar með villandi hætti, sex tímar gjaldfrjálsir hafi verið auglýstir en svo hafi í smáa letrinu falist sú raun að um töluverða hækkun umfram þá dvöl væri um að ræða. Jafnvel hefur Kópavogsbær verið sakaður um aðför að láglaunakonum sem gjarnan séu með ósveigjanlegan vinnutíma og þar að auki í verri stöðu til að greiða hækkunina, eða eins og ein komst að orði í umræðuþræði inn á hópi mæðra, „Takk fyrir ekkert, Kópavogsbær“.
Akureyrarbær hefur boðað samskonar breytingar frá og með áramótum, sex tímar gjaldfrjálsir og tekjutengdur afsláttur. Meirihlutinn hefur unnið að slíkum tilkynningum og stendur til að taka málið fyrir í fræðslu- og lýðheilsuráði nú í ágúst. Núverandi gjald fyrir hámarksdvöl, 8,5 stundir er í dag 45.709 krónur með fullu fæði og án afsláttar.
Samkvæmt gjaldskrá leikskóla í Reykjavík er mánaðargjald fyrir 8,50 dvalarstundir með fullu fæði 35.274 krónur, án nokkurs afsláttar.
Í Garðabæ er hámarksdvöl 9,5 stundir en án afsláttar með fullu fæði er heildargjald 59.422 kr. samkvæmt gildandi gjaldskrá.
Fyrir 9 dvalarstundir í Hafnarfirði með fullu fæði greiða foreldrar 47.119 krónur.
Í Mosfellsbæ er gjald fyrir 9 dvalarstundir með fullu fæði 36.124 krónur án afsláttar fyrir börn eldri en 12 mánaða, en 62.133 fyrir börn yngri en 12 mánaða. Þar eru einnig innheimt bleyjugjald sem eru 2.846 krónur fyrir 8 dvalartíma.
Í Seltjarnarnesbæ greiða foreldrar 43.903 fyrir 9 dvalarstundir með fullu fæði.