fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Lindarhvolsmálið á mannamáli: Möguleg umboðssvik kunna að hafa kostað ríkið 0,5-1,9 milljarða

Ólafur Arnarson
Þriðjudaginn 1. ágúst 2023 17:30

Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lindarhvolsmálið, sem nú er á borði héraðssaksóknara og þar með komið í hefðbundið ferli sakamála, er umfangsmikið og nokkuð flókið. Í málinu liggur hins vegar ljóst fyrir að Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols ehf., gerði alvarlegar athugasemdir við starfsemi félagsins í greinargerð sinni sem fjármálaráðherra, ríkisendurskoðandi og forseti Alþingis héldu leyndri fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, öðrum þingmönnum og öllum almenningi í næstum fimm ár.

Sem betur fer var hulunni lyft af greinargerðinni í síðasta mánuði. Kom þá endanlega í ljós hversu mikill hvítþvottur felst í þeirri skýrslu um starfsemi Lindarhvols sem Ríkisendurskoðun skilaði að lokum til Alþingis fyrir rúmum þremur árum. Þarf engum að koma á óvart að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hafi ekki treyst sér til að afgreiða þá skýrslu, enda virðist hún beinlínis röng í flesta staði og gefa afskaplega bjagaða og fegraða mynd af starfsemi einkahlutafélagsins.

Þar sem Lindarhvols málið er svo umfangsmikið og flókið mun Eyjan á næstunni fjalla um einstök atriði þessa máls og þann furðumálflutning sem fjármálaráðherra, forseti Alþingis og ríkisendurskoðandi hafa stundað til að reyna að réttlæta leyndarhjúpinn sem þeir reyndu að bregða um starfsemi Lindarhvols.

Einna lengst í stoðlausum málflutningi hefur Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, gengið. Lögskýringar hans stangast á við lögfræðiálit Flóka Ásgeirssonar, lögmanns, sem unnið var að beiðni forseta Alþings og fara þvert gegn ábendingum Skúla Magnússonar, umboðsmanns Alþingis, til fjármálaráðherra vegna rangrar og villandi tilkynningar sem birt var á vef ráðuneytis hans fyrr á þessu ári um lagalega stöðu greinargerðar Sigurðar Þórðarsonar. Neyddist ráðuneytið í þrígang til að breyta tilkynningunni vegna ábendinga umboðsmanns, sem furðar sig á þekkingarleysi í stjórnkerfinu á skyldum stjórnvalda til að veita almenningi upplýsingar.

Í frægu viðtali í Sprengisandi á Bylgjunni 23. júlí sl. hélt Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, því fram að ekkert væri athugavert við það á hvaða verði stjórn Lindarhvols seldi hlut ríkisins í Klakka til félags sem leitt var af stjórnendum Klakka.

Hlutur ríkisins í Klakka var seldur á rúman hálfan milljarð. Guðmundur Björgvin fullyrti í viðtalinu að þótt síðar hafi komið í ljós að hluturinn í Klakka væri nær tvöfalt verðmætari en sem nam söluandvirðinu þýddi það ekki að Klakki hefði verið seldur of ódýrt. Til að rökstyðja þessa staðhæfingu tók hann dæmi um að hann hefði fyrir einhverjum árum keypt íbúð á Akureyri á 43 milljónir sem nú væri 57 milljóna virði. Það þýddi samt ekki að íbúðin hafi verið keypt of ódýrt á sínum tíma.

Hér afhjúpar ríkisendurskoðandi hversu laustengdur málflutningur hans í Lindarhvolsmálinu er við staðreyndir, ef nokkur slík tenging þá er fyrir hendi.

Staðreyndir málsins eru eftirfarandi:

  • Steinar Þór Guðgeirsson, sem fór með framkvæmdastjórn Lindarhvols, sat í stjórn Klakka fyrir hönd stjórnar Lindarhvols til að gæta hagsmuna Lindarhvol og þar með ríkissjóðs og íslenskra skattgreiðenda.
  • Í júní 2016 fékk stjórn Klakka í hendur verðmat Deloitte á eign ríkisins í Klakka, sem stjórnin hafði sjálf pantað. Verðmatið hljóðaði upp á tæpan milljarð.
  • Nokkrum vikum fyrir söluna á Klakka í október 2016 lá fyrir nýtt árshlutauppgjör fyrir Klakka sem sýndi betri niðurstöðu en búist hafði verið við. Þessar upplýsingar höfðu stjórnendur og stjórn félagsins og þar með stjórn Lindarhvols þar sem Lindarhvoll hafði fulltrúa í stjórn Klakka. Með hliðsjón af verðmati Deloitte í júní er ljóst að stjórnendur Klakka og stjórn Lindarhvols vissu áður en sala for fram að verðmæti eignar ríkisins í félaginu væri að minnsta kosti milljarður en ekki 505 milljónir, sem er það verð sem stjórnendur Klakka fengu að kaupa eignina á.
  • Sigurður Þórðarson fékk verðmat Deloitte á Klakka í hendur í maí 2021 en hafði sjálfur gert verðmat á félaginu sem var mjög áþekkt mati Deloitte.
  • Í bréfi Sigurðar Þórðarsonar, dags. 28. júní 2023, til ríkissaksóknara kemur fram að eftir söluna til stjórnenda Klakka og fram til ársloka 2020 runnu samtals 1.270 milljónir til kaupenda Klakka og 614 milljónir til slitabús Glitnis, eða samtals 1.884 milljónir (tæplega 1,9 milljarðar) sem ríkissjóður varð af vegna sölu Lindarhvols á hlutnum í Klakka.

Tilraunir ríkisendurskoðanda til að líkja ofangreindu við þróun fasteignaverðs á Akureyri í fasteignabólu eru kjánalegar og myndu réttlæta sjálfstæða athugun á því hvort hann hefur hæfni til að gegna því mikilvæga embætti sem hann nú gegnir.

Staðreyndir málsins sýna að stjórn Lindarhvols var ljóst á söludegi, þegar stjórnendur Klakka fengu að kaupa hlut ríkisins í félaginu, að þar var verið að selja ríkiseign á hálfvirði.

Þetta lá fyrir á söludegi. Síðar kom í ljós að ríkissjóður tapaði ekki einungis hálfum milljarði á vinnubrögðum stjórnar Lindarhvols við þessa sölu heldur tæpum 1,9 milljörðum fram til ársloka 2020.

Dómafordæmi seinni ára í umboðssvikamálum gefa til kynna að full ástæða sé til að rannsaka hvort stjórn Lindarhvols og fleiri hafi gerst sekir um umboðssvik við þessa sölu. Spurningin snýst væntanlega um það hvort tjón ríkisins vegna vinnubragða stjórnar Lindarhvols hafi numið hálfum milljarði eða 1,9 milljörðum.

Ríkisendurskoðandi og aðrir sem leynt hafa upplýsingum um starfsemi Lindarhvols, sem birtast í greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, virðast enn berja höfðinu við steininn og segja hvítt vera svart og öfugt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“