Frænkur Ásmundar Einars Daðasonar, ráðherra Framsóknar, sem þessa dagana saka hann um lögbrot og fleira tengt deilum vegna erfðamála innan fjölskyldunnar, vilja ná eyrum fjölmiðla og fá í gegnum þá útrás fyrir reiði sína og sjónarmið. Þá er gott að reyna að draga þjóðþekktan mann inn í málið til að freista þess að beina athygli að því, skrifar Ólafur Arnarson í Náttfarapistli á Hringbraut.
Ólafur segir Ásmund Einar hafa svarað tilhæfulausum ásökunum í hans garð með yfirlýsingu sem hann birti um helgina þar sem fram kemur að hann hafi stutt föður sinn í ágreiningi innan fjölskyldunnar í upphafi en algerlega sagt sig frá afskiptum af málinu strax árið 2007 – fyrir 16 árum.
Ólafur heldur áfram og segir fjölskylduerjur vestur í Dölum vekja áhuga mjög fárra nema kannski ef hægt sé að tengja nafn þekkts stjórnmálamanns við þær. „Vandi systranna er bara sá að Ásmundur Einar er ekki aðili að þessu máli þótt faðir hans sé það. Vandséð er hvernig unnt er að rugla því saman.“
Málflutningur systranna er að mati Ólafs öfgakenndur og ótrúverðugur. Þó sé nauðsynlegt að rannsaka og fá á hreint hvort svo ólíklega vilji til að einhver fótur sé fyrir ásökunum systranna á hendur lögreglunni í Borgarnesi um að embættið vinni ekki fagmannlega heldur taki við fyrirmælum frá valdhöfum. Þetta séu alvarlegar ásakanir sem ekki gangi að láta ósvarað.
Ólafur segir ríkislögreglustjóra verða að rannsaka þessar ásakanir og svar með viðeigandi hætti. Einnig verði Guðrún Hafsteinsdóttir, nýskipaður dómsmálaráðherra, að láta málið til sín taka.
Náttfara í heild má lesa hér.