Hagstofa Íslands birti nú í morgun nýjustu mælingu sína á vísitölu neysluverðs.
Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í júlí 2023, er 595,8 stig og hækkar um 0,03% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 492,1 stig og hækkar um 0,20 prósent frá júní 2023.
Sumarútsölur hafa verið í gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 8,7 prósent og hafði það áhrif á vísitöluna til lækkunar um 0,34 prósent. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) lækkaði um 0,7 prósent og hafði það áhrif á vísitöluna til lækkunar um 0,14 prósent og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 13,9 prósent sem hafði áhrif á vísitöluna til hækkunar um 0,28 prósent.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,6 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 7,1 prósent.
Í júnímánuði hafði vísitalan hækkað um 8,9 prósent á tólf mánuðum.
Það þýðir, með öðrum orðum, að verðbólga á ársgrundvelli hefur lækkað úr 8,9 prósent í 7,6 prósent. Hún var 10,2 prósent í febrúar síðastliðnum og er því á hægri niðurleið.