fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Alþingi

Eyjan
Þriðjudaginn 18. júlí 2023 11:50

Ari Kr. Sæmundsen, fyrrverandi framkvæmdastjóri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef búið og starfað á Íslandi lungann af ævinni en verð að viðurkenna að ég hef aldrei fyllilega skilið íslensk stjórnmál. Hef t.d. aldrei skilið umræðuna um hægri og vinstri, hvað þá um hina margumtöluðu miðju. Sýnist þetta vera sami grautur í sömu skál, sbr. núverandi ríkisstjórn. Ætla heldur ekki að hætta mér út umræðu um kjördæmaskipan og vægi atkvæða. Það mun ekki breytast á minni lífstíð. En nýliðin ráðherraskipti urðu til þess að ég fór að velta fyrir mér starfsháttum alþingis.

Fyrir allmörgum árum var ég á ferðalagi um landið og hitti þá fyrrverandi framkvæmdastjóra stjórnmálaflokks. Við vorum málkunnugir og tókum tal saman. Hann var hinn skemmtilegasti og reytti af sér brandara. Sagði mér t.a.m. að hann bæði alltaf nýja þingmenn flokksins um að nefna fimm ástæður sem urðu til þess að þeir sóttust eftir að komast á þing. Þingmannsefnin settu sig í stellingar og fóru að tína til ýmiss þjóðþrifamál sem þau töldu að þörfnuðust aðkomu þeirra. Þá bað framkvæmdastjórinn þau um að staldra aðeins við og bara viðurkenna að þær fimm ástæður sem skiptu mestu máli væru: maí, júní, júlí, ágúst og september.

Ísland var bændasamfélag og þinghaldið virðist hafa tekið mið af þörfum bænda. Þeir þurftu langt jólafrí til að hleypa til. Í maí hófst sauðburður og síðan tók við hábjargræðistíminn, heyannir. Í september voru svo göngur, réttir og sláturtíð. Af hverju þingmenn þurftu svo langt páskafrí er mér hulin ráðgáta. Kannski til að iðka trú sína, fagna upprisu Krists? Hef ekki hugmynd. Væri ekki ráð að færa starfshætti Alþingis inn í nútímann, að alþingismenn mæti í vinnuna eins og annað skrifstofufólk og tækju sér frí eins og öðrum landsmönnum er skammtað? Það myndi e.t.v. fækka kvöld- og næturfundum og koma í veg fyrir óðagotið sem einkennir þingstörfin áður en þingmenn skella sér í frí. Svo eru það öll aukafríin, s.k. kjördæmavikur. Fara þá þingmenn í reiðtúr um kjördæmi sitt til að ræða landsins gagn og nauðsynjar?

Hef heldur aldrei skilið af hverju óafgreidd þingmál lifa ekki þinglok, flutningsmenn þeirra alltaf á byrjunarreit þegar þing kemur saman að nýju. Svo eru það þingfundirnir sjálfir, hálftómur salurinn og meirihluti þeirra sem þó hafa haft fyrir því að mæta uppteknir í símanum, kannski að lesa færslur á fésbókinni eða fréttir á netmiðlum. Leyfi mér að fullyrða að slíkt yrði ekki liðið í nokkru fyrirtæki eða stofnun fyrir utan áhugaleysið og vanvirðuna gagnvart þeim sem er að tjá skoðanir sína í ræðustól. Það leiðir hugann að þessu fráleita titlatogi, ráðherrar eru hæstvirtir og þingmenn háttvirtir, en háttvísi er ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar fylgst er með störfum alþingis.

Nýir þingmenn sverja hollustueið og eru jafnframt áminntir um að fylgja aðeins sannfæringu sinni, taka ekki við fyrirmælum frá neinum. Sannfæringin er hins vegar fokin út í veður og vind um leið og dyrnar á flokksherberginu lokast. Þó eru á þessu nokkrar undantekningar, mér dettur t.a.m. í hug varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í SV kjördæmi, sem hefur verið ófeiminn við að viðra skoðanir sem virðast á skjön við áherslur forystunnar. Spái því að þessi ágæti maður muni ekki kemba hærurnar í þingliði flokksins. Höldum okkur við hollustueiðinn, en látum sannfæringuna róa; hún er markleysa og í raun aðhlátursefni.

Á Íslandi ríkir þrískipting valds: löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald, a.m.k. í orði. Eins og ég skil þetta á löggjafinn, Alþingi, að setja landinu lög og veita framkvæmdavaldinu aðhald, en það á að framfylgja settum lögum og setja reglugerðir til frekari skýringa. Dómsvaldið sker svo úr um álitamál sem upp kunna að koma upp við túlkun laga og reglugerða. En bíðum við, ráðherrar eru alla jafna valdir úr þingliði þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn. Eru þeir þá bæði löggjafar- og framkvæmdavald? Þeir sjá bæði um að setja okkur lög og framfylgja þeim.

Það var kostulegt að fylgjast með s.k. ráðherrakapal Sjálfstæðisflokksins. Helst var að skilja að oddviti flokksins í Suðurkjördæmi ætti rétt á að verða ráðherra og virtist ekki skipta máli hvaða ráðuneyti hann stýrði, en dómsmálaráðuneytið varð niðurstaðan. Af hverju þurfa Sunnlendingar að eiga ráðherra, eða aðrir landshlutar ef því er að skipta? Til að komast í hina margumtöluðu skúffupeninga? Er ekki mikilvægara að þeir sem taka að sér verkið séu starfinu vaxnir? Reyndar eru flestir ráðherrar slíkt mannkostafólk að það vefst ekki fyrir þeim að stýra mörgum mismunandi ráðuneytum, eftir því hvernig vindar blása. Ráðherrarnir, framkvæmdavaldið, og embættismannaherinn drita svo lagabreytingum og -frumvörpum inn í þingið, sem stjórnarþingmenn samþykkja alla jafna athugasemdalaust. „Verklítil ríkisstjórn“, baular stjórnarandstaðan eins og fjöldi nýrra lagafrumvarpa sé mælikvarði á vinnusemi og gæði vinnunnar.

En hvað eru þá þingmenn, löggjafinn, að sýsla? Stjórnarþingmenn eru sjálfsagt í símanum, en stjórnarandstöðuþingmenn eru ólatir við að benda ráðherrum á hvað betur mætti fara í fyrirliggjandi lagafrumvörpum. Ef þingmenn hafa svona ákveðnar skoðanir á því hvernig orða á lögin, af hverju semja þeir ekki frumvarp sjálfir? Er það ekki þeirra hlutverk? Það er reyndar svo sjaldgæft að löggjafinn leggi til breytingar á lögum eða ný lagafrumvörp að það verður sérstakt fréttaefni. Til glöggvunar eru þessi frumvörp kölluð þingmannafrumvörp, en frumvörp þeirra þingmanna, sem jafnframt eru ráðherrar, stjórnarfrumvörp. Þess á milli er karpað undir liðunum „óundirbúinn fyrirspurnatími“ eða „fundarstjórn forseta“, eða hvað þetta er nú kallað og innleiddar tilskipanir frá Evrópusambandinu sem virðist nú endanlega hafa tekið sér löggjafarvald á Íslandi.

En eins og ég sagði í upphafi, ég botna ekkert í íslenskum stjórnmálum hvað þá starfsháttum Alþingis.

Höfundur er doktor í veirufræði og situr í stjórn Medor.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“