Vindmyllur eru góð þriðja stoð í orkukerfi Íslands. Vindgæði hér á landi eru svo góð að vindmyllur hér þurfa einungis að vera 150 metrar á hæð en ekki 250 metrar eins og andstæðingar vindorkuvera halda fram. Á sama tíma og önnur lönd greiða götu endurnýjanlegrar orkuvinnslu stefnum við í þveröfuga átt hér á landi. Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í hlaðvarpsþættinum Markaðurinn á Eyjunni.
Hörður segir vindorkuver hér hagkvæm kostnaðarlega en það breyti ekki því að vatnsaflið og jarðvarminn séu okkar grunn orkugjafar og áfram séu miklir möguleikar þar.
Hörður segir vindmyllurnar sem Landsvirkjun hyggst nota verða í hæsta lagi 150 metra háar, en ekki 250 metrar eins og andstæðingar vindorkuvera hér á landi hafa haldið fram. Hver vindmylla muni afkasta á bilinu 4-5 MW og heildarafköst Búrfellslundar séu ráðgerð 120 MW.
Ástæðan fyrir því að ekki verður farið hærra en 150 metra er sú að vindgæði hér eru svo góð að ekki er þörf á hærri myllum. Hörður segir Landsvirkjun hafa komið mjög til móts við gagnrýnissjónarmið vegna fyrstu útfærslu Búrfellslundar og meðal annars verði vindmyllurnar færðar til þannig að þær skyggi ekki á Heklu. Fengnir hafi verið erlendir sérfræðingar til ráðgjafar og tekist hafi að minnka mjög sjónræn áhrif, líka frá þeim útsýnisstöðum sem ferðamenn fara mikið til á þessu svæði.
„Öll lönd eru að greiða götu endurnýjanlegrar orkuvinnslu en við erum að fara í þveröfuga átt. Hér stefnir í orkuskort 2026-27 vegna þess að nýjar virkjanir hafa tafist vegna alls kyns mótstöðu í kerfinu. Á næstu árum verður staðan mjög flókin,“ segir Hörður Arnarson.