fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Íslenska krónugjaldið

Eyjan
Laugardaginn 15. júlí 2023 12:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sá sem hér lemur lyklana á tölvu sinni skrapp nýverið í stutta vinnuferð yfir á meginland Evrópu, sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, en afréð að taka út gjaldeyri í einum viðskiptabankanna í Leifsstöð áður en flogið var úr landi.

Þar tapaði hann verulegum fjármunum fyrir klink á krám og kaffihúsum.

Og mátti svo sem vita það.

En 40 þúsund íslenskar krónur breytast sumsé á einu bretti í á að giska 35 þúsund íslenskar krónur í þessum viðskiptum sem eiga varla sinn líka í þróuðum hagkerfum heimsins. Það tapast yfir tíu prósent í þessu lottói – og litlu skárra er raunar að nota greiðslukortin í útlöndum, því krónugengið klípur gjarnan um fimm prósent af greiddri upphæð með korti á þeim slóðum.

Íslendingar láta sér þetta ekki endilega vel líka. Og tuða í kviðinn. En það er aldrei meira en svo. Þeir eru svo vanir krónugjaldinu sem þeir verða greiða fyrir þennan veika gjaldmiðil sem þeir hafa þráast við að nota í ríflega öld að þeir yppta bara í besta falli öxlum yfir arðráninu.

Krónan bara kostar. Það er íslenski hugsanahátturinn.

Og enn er það skýr stefna meirihluta stjórnmálaflokka á Alþingi að notast skuli við krónuna svo hægt sé að nota heimatilbúin tæki og tól til að stjórna henni.

Stjórna henni!

Krónan hefur verið stjórnlaus allan tímann sem hún hefur verið við lýði.

Ekkert fyrirbrigði á Íslandi hefur farið jafn fingralangt um fyrirtæki og heimili en krónan í meira en mannsaldur. Dæmisagan hér að ofan er bara ein af mörgum birtingarmyndum þessa þjófnaðar sem þjóðin hefur samþykkt frá því hún varð fullvalda við dagsbrún síðustu aldar.

En það sem verra er. Þjóðin sættir sig við þetta. Meirihluti hennar kýs að hafa þennan háttinn á.

„Krónan hefur verið stjórnlaus allan tímann sem hún hefur verið við lýði.“

Og hvað skyldi sú sama þjóð hafa tapað mörg hundruð eða þúsundum milljarða á því að greiða krónunni það sem ónýtum gjaldmiðli ber í hundrað ár? Er það ef til vill svo að sama þjóð þorir ekki að rannsaka það? Svarið og niðurstaðan kæmi auðvitað upp um heimóttarskapinn og fáviskuna.

Í skjóli krónunnar græða þeir einir sem eiga fjármuni en allir tapa sem vantar hana. Krónan er enda ekki gjaldmiðill sem gerður er fyrir lántökur. Hún er aðeins gerð fyrir innlán. Hún er með öðrum orðum ekki á færi alþýðunnar og allra síst unga fólksins sem er að koma sér þaki yfir höfuðið.

Íslensku bankarnir juku hreinar vaxtatekjur sínar um 27 prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og Seðlabankinn þekkir engin önnur ráð en að bæta um betur með endalausum stýrivaxtahækkunum til að tryggja enn frekar tilfærslu fjármagns og eigna frá skuldsettum heimilum í botnlausar kistur fjármálakerfisins.

Þetta er kúltúrinn á Íslandi. Og það liggur fyrir meirihlutasamþykkt í pólitíkinni hér á landi um að þetta skuli vera svona vitlaust. En það opinberar einmitt íslensk stjórnmál. Þau ætla sér ekki að laga villur, heldur viðhalda þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
23.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar