Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður VG, fer í aðsendri grein á Eyjunni í dag hörðum orðum um þá ákvörðun flokkssystur hennar, Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að auka ekki aflaheimildir til strandveiða og þar með í raun banna strandveiðar frá og með þessari viku.
Lilja Rafney, sem á síðasta kjörtímabili var formaður atvinnuveganefndar Alþingis og leiddi þverpólitíska vinnu um endurskoðun Strandveiðikerfisins, segist svíða það sárt „að horfa upp á getu- og viljaleysið við að tryggja aflaheimildir í 48 daga út ágúst og að þetta sé í fyrsta skiptið þegar þörf hefur verið til að engu sé bætt við Strandveiðipottinn!“
Hún segir Strandveiðar vera stóran þátt í atvinnu- og menningu minni sjávarbyggða sem ekki megi glatast og hverfa inn í enn frekari samþjöppun stórútgerðanna. Nú sé hins vegar skellt í lás og fleiri hundruð manns gerð atvinnulaus með tilheyrandi afleiðingum fyrir fólkið og sjávarbyggðirnar.
Lilju Rafney kemur ekki á óvart að sjómenn rísi nú upp og mótmæli aðgerðaleysi stjórnvalda við að efla og tryggja Strandveiðar við Alþingishúsið á morgun, en boðað hefur verið til mótmæla. Gengið verður frá Hörpu kl. 12 að Alþingishúsinu. Þar mun Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar flytja ávarp og KK flytja nokkur lög, auk þess sem fleiri atriði verða á dagskránni.
Hún segir það í valdi ráðherra hverju sinni hvernig hann vinnur úr vísindaráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og hvort hann forgangsraði í þágu smærri útgerða sem ekki hafa þol fyrir mikla ágjöf og hafa lítið í stórútgerðirnar að gera sem komnar eru með stærstan hluta aflaheimilda. Hún bendir á að lítið bóli á rannsókn stjórnvalda hvort einhverjar þeirra séu komnar yfir leyfileg kvótaþök.
Lilja Rafney bendir á að Strandveiðar séu umhverfisvænustu veiðar sem til eru og að Sameinuðu þjóðirnar leggi sérstaklega áherslu á sjálfbærar veiðar, ekki síst handfæraveiðar.
Grein Lilju Rafneyjar í heild má lesa hér.