Um áratugaskeið hefur Morgunblaðið sleitulaust birt minningargreinar um látna áskrifendur sína og aðra. Í hverri viku eru tugir síðna lagðir undir minningabrot, hlýjar kveðjur og hughreystingarorð til aðstandenda. Þetta mun vera nær einsdæmi í alþjóðlegum samanburði. Efnið nýtur nokkurra vinsælda meðal lesenda. Þeir elstu renna yfir það til að ganga úr skugga um að þeir séu enn meðal lifenda. Aðrir svala forvitni sinni og lesa af einskærum áhuga á fólki, reynslu þess og raunum. Samanlagt eru minningargreinar í blaðinu merkileg heimild um líf fólks en hafa verður í huga að góður er hver genginn.
Svarthöfði er einn þeirra sem eru á milli ofangreindra flokka. Hann fagnar því á hverjum morgni fram til þessa að sjá hvorki um sig dánartilkynningu né minningarorð því það eykur líkurnar nokkuð á að hann sé enn á lífi. En einnig leitar hann uppi greinar um fólk sem hann þekkir til eða niðja þess.
Annað veifið ber við að minningargreinar fjalla um þann sem skrifar. Þannig bar til nýlega þegar Svarthöfði rak augu í minningarorð um pólitískan samferðamann eftir fyrrverandi stjórnmálaforingja og ráðherra á uppgangstímum hér á landi.
Þar tókst höfundi að fjalla örstutt um hinn látna í eins konar aðfararorðum greinar sinnar og síðan vart meir. Að öðru leyti fjallaði höfundurinn um sjálfan sig og meint eigin afrek.
Svarthöfða þykir fara vel á þessu. Þannig er búið að leggja helstu línur þegar kallið loks kemur og menn stíga sjálfir af sviðinu. Sigrunum haldið til haga og því sneitt hjá umfjöllun um það sem betur mátti fara. Þannig tryggja menn góð sögulok þótt síðarnefnda atriðið kunni að vera fyrirferðameira en það fyrra.