fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Færum Alþingi að hluta á Þingvelli

Eyjan
Sunnudaginn 9. júlí 2023 14:00

Kristján konungur VIII er réttnefndur faðir Alþingis hins nýja.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristján VIII hafði nýlega tekið við völdum í Danmörku er hann afréð að Íslendingar skyldu fá sitt eigið ráðgefandi fulltrúaþing. Þegar var áformað að laga það eftir alþingi hinu forna, það skyldi bera sama nafn og verða háð á Þingvöllum. Og það var þá sem Jónas orti kvæðið, Alþing hið nýja, þar sem einvaldskonungurinn er hylltur fyrir framtakið:

Vaki vaskir menn!

til vinnu kveður

giftusamur konungur

góða þegna.

Annar Fjölnismaður, Tómas Sæmundsson, tók boðskap konungs fagnandi í grein þar sem gengið var enn lengra í hugmyndum um endurreisn hins forna þjóðfélags með kjöri 48 lögréttumanna, stofnun vorþinga og þar fram eftir götunum. Grein Tómasar, sem birtist 1841, er rituð af slíkri andagift að lesandinn hrífst óhjákvæmilega með. Líkt og flestir þekkja benti Jón Sigurðsson á í Nýjum félagsritum árið eftir að praktísk rök hnigju að því að efna til hins nýja þings í Reykjavík en Tómas hafði nefnt í grein sinni að þingmenn úr sveitum landsins fengju sín ekki notið í Reykjavík; myndu missa allt sjálfstraust og leiðast af kaupmönnum og öðrum útlendingum, þannig að þingstarfið yrði að litlu gagni.

Hvert mannsbarn lærir um það í skóla að hið nýja Alþingi kom loks saman fyrsta sinni í Reykjavík sumarið 1845. Rómantískar hugmyndir um endurreisn fornrar þjóðfélagsskipunar urðu að þoka fyrir nýtískulegri viðhorfum.

Furðu fullkomið lagakerfi

En þó svo að Alþingi sé allt önnur stofnun en alþingi hið forna sem jafnan er álitið stofnað 930 þá er hér að finna merkilegan sögulegan þráð sem gjarnan má halda á lofti — þrátt fyrir að sagan sé alls ekki samfelld.

Í efnahagslegu tilliti er vægi Íslendinga hverfandi og hernaðarlega geta engin. Sem menningarþjóð eigum við aftur á móti erindi við heiminn. Menningararfleifðin er einkum og sér í lagi tengd við fornsögurnar og fornan kveðskap en á seinni árum er minni gaumur gefinn að hinni fornu stjórnskipan (sem Tómas hreifst svo mjög af) að ekki sé minnst á lagakerfið sem var furðulega þróað. Sá lagatexti sem birtist okkur í Grágás er miklu meitlaðri og fræðilegri en slíkir textar í nálægum löndum á miðöldum. Í lögum þjóðveldisins birtast með skýrum hætti hugmyndir germanskra þjóða um stjórnskipan. Til grundvallar þessu þjóðfélagi lá einhvers konar sáttmáli frjálsra manna þar sem byggt var á lagahefð kynslóðanna en sammæli þurfti um nýmæli. Þessi forni lagaskilningur fól í sér að vald var í eðli sínu takmarkað. Sitthvað fleira athyglisvert má tína til enda mun meira vitað um alþingi hið forna en flest önnur miðaldaþing.

Færeyingar kunna þetta

Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi ráðherra og þingforseti, lést í apríl sl. Hann velti því upp við þingsetningu haustið 1995 hvort rétt væri að setja Alþingi á árlegri þjóðarsamkomu á Þingvöllum. Þetta gæti orðið leið til að efla tengsl almennings og þings. Þingsetningarathöfnin mætti skipa meiri sess í þjóðlífinu en eins og háttaði til væri athöfnin of lokuð: „Ég vil því tengja almenning betur setningarathöfninni og gera hana þannig að stærri þætti í þjóðlífi okkar,“ sagði Ólafur. En þar sem óheppilegt gæti orðið sökum veðurs að setja þing undir berum himni að hausti lagði hann til að þingsetning á Þingvöllum færi fram á laugardegi — ekki svo fjarri hinum forna þingsetningardegi. Forseti Íslands — sem hinn handhafi löggjafarvalds — setti þingið og síðan mætti kjósa forseta, varaforseta og fastanefndir en við svo búið fresta fundi fram til hausts. Þannig gæti þingsetningin orðið meiriháttar viðburður í þjóðlífinu sem almenningur sækti.

Fleiri hafa ámálgað hugmyndir um setningu Alþingis á Þingvöllum en hún tekur mið af hinni færeysku Ólafsvöku þegar fagnað er ártíð Ólafs helga konungs 29. júlí ár hvert en þann dag 1030 mun hann hafa fallið í Stiklastaðaorrustu. Ólafur helgi var dýrlingur um öll Norðurlönd, kirkjan á Þingvöllum var helguð honum frá því þegar á elleftu öld, en mest var helgi hans annars vegar í Þrændalögum og hins vegar Færeyjum þar sem ártíð hans er eins konar þjóðhátíð. Á hinni færeysku Ólafsvöku er Lögþingið sett, þingmenn, prestar og helstu embættismenn landsstjórnarinnar ganga í skrúðgöngu frá þinghúsinu til kirkju og hlýða á messu. Þingsetning fer fram að henni lokinni og lögmaðurinn flytur ávarp. Stór hluti eyjaskeggja er viðstaddur þessa magnþrungnu þjóðhátíð þar sem landsmenn koma prúðbúnir saman sem einn maður — en allar kritur eru lagðar til hliðar á Ólafsvöku.

Veglega sali vantar á Þingvöllum

Alþingi hið forna var hvort tveggja í senn helsti samkomustaður landsmanna og skemmtistaður, enda víða í fornum heimildum fjallað um veitinga- og ölsölu á Þingvöllum. Í þjóðernisvakningu 19. aldar varð siður að efna til Þingvallafunda en tilfinnanlega skorti varanlega aðstöðu á staðnum. Úr því var bætt að nokkru með byggingu veitinga- og gistihúss sem tekið var í notkun 1898 og fékk nafnið Valhöll. Fyrir alþingishátíðina 1930 var Valhöll færð nokkru sunnar. Húsið gjöreyðilagðist í eldi 10. júlí 2009 en ríkissjóður hafði keypt það sjö árum fyrr.

Þingvelli skortir nú gistihús, veitingaaðstöðu og önnur vegleg salarkynni. Mig langar að stinga upp á því að ný og glæsileg Valhöll verði reist á Völlunum, nærri þeim stað sem hún stóð er hún var tekin í notkun 1898. Til að gæta að „staðaranda“ mætti gjarnan hafa forhlið þeirrar byggingar í stíl gömlu Valhallar. Væntanlega yrði gistihús á þessum stað að vera af sæmilegri stærð svo reksturinn reynist hagkvæmur en vitaskuld eru aðstæður orðnar allar aðrar og miklu hagfelldari starfrækslu veitinga- og gistihúsa en nokkru sinni var í tíð gömlu Valhallar.

Auk veglegs gistihúss og hátimbraðra veitingasala mætti hugsa sér að þarna yrði sett upp varanleg sýning tengd sögu hins forna alþingis en sömuleiðis gæti farið vel á að innréttaður yrði raunverulegur þingsalur Alþingis þarna innan dyra sem yrði opinn gestum og gangandi. Þannig mætti ímynda sér að þingfundir yrðu af og til haldnir á Þingvöllum — til dæmis ef þingið þyrfti næði til vandasamra starfa um hríð.

Fyrirtaks skemmtun

Hugmynd Ólafs G. heitins gerði þó ráð fyrir þingsetningu utandyra. Þingsetningarfundur undir berum himni gæti orðið hluti stærri árlegrar hátíðar á Þingvöllum með hljómleikum, samsöng og dansi — líkt og án efa hefur tíðkast til forna. Í þessu sambandi mætti hugsa sér uppsetningu varanlegs „leikhúss“ að rómverskri eða forngrískri fyrirmynd, allnokkuð niðurgrafið, þar sem mannfjöldinn gæti fylgst með þingsetningunni á sviði, hlýtt á ávarp forseta — en síðan tæki skemmtunin við. Þetta væri að líkindum áhrifarík leið til að gera þingsetninguna að hátíðlegum viðburði í þjóðfélaginu þar sem almenningur yrði þátttakandi. En svo mættu Íslendingar líka gjarnan reisa Kristjáni konungi VIII minnisvarða — föður Alþingis hins nýja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!