Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, hefur vísað Lindarhvolsmálinu til ríkissaksóknara til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu.
Þetta kemur fram í bréfi Sigurðar til þeirra sem málið varðar, dags. 28. júní 2023. Fylgiskjöl með bréfinu eru:
Eyjan hefur þessi gögn undir höndum. Greinargerðin frá júlí 2018 er 70 blaðsíður og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur neitað að afhenda hana eða leyfa nokkrum að sjá hana þrátt fyrir að forsætisnefnd hafi einróma samþykkt að afhenda hana að fengnu lögfræðiáliti um að ekki væri einungis heimilt að afhenda hana heldur beinlínis skylt.
Andstaða við afhendingu hefur fyrst og fremst komið frá fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar, Ríkisendurskoðun og Seðlabankanum. Því hefur verið borið við að greinargerðin sé vinnuskjal, sem er rangt enda hefur Sigurður Þórðarson sjálfur lýst því að hann skilaði vinnuskjölum sínum sem notuð voru við vinnslu hennar til Ríkisendurskoðunar í 20 möppum og á minniskubbi.
Ástæða þess að Sigurður hefur nú vísað Lindarhvolsmálinu til ríkissaksóknara er sú að mikill munur er á upplýsingum og mati því sem fram kemur í greinargerð hans og skýrslu Ríkisendurskoðunar sem Skúli Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisendurskoðandi, skilaði til Alþingis fyrir rúmum þremur árum og ekki hefur tekist að afgreiða meðal annars vegna þeirrar leyndar sem hvílir yfir greinargerðinni sem nú er komin fram í dagsljósið.
Alvarleg gagnrýni
Í greinargerð Sigurðar Þórðarsonar kemur fram margvísleg og alvarleg gagnrýni á starfsemi Lindarhvols, m.a.:
Rangt farið með fyrir dómi
Ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga áttu að gilda um Lindarhvol en eftir því var í engu farið.
42-51 verkefni var beint til Steinars Þórs eftir að Lindarhvoll starfsemi Lindarhvols var hætt. Eftir það var einn stjórnarmaður í félaginu, starfsmaður fjármálaráðujneytisins. Svo virðist sem lítið eftirlit hafi verið með ráðstöfun milljarðatuga.
Jafnræði bjóðenda í sölueignir Lindarhvols var ekki tryggt – ný skilgreining á jafnræði, sem kom fram fyrir dómi í Lindarhvolsmálinu, virðist hafa verið eftiráskýring stjórnar.
Bjóðendur áttu að hafa nauðsynlegar upplýsingar og aðgengi en fengu ekki. Lindarhvoll afhenti nákvæmlega engar upplýsingar en gekk til samninga við bjóðendur í Klakka sem voru innanbúðarmenn í Klakka og höfðu því mun meiri upplýsingar en aðrir bjóðendur.
Steinar Þór Guðgeirsson var kominn með prókúru fyrir Lindarhvol áður en fyrsti fundur stjórnar var haldinn – áður en stjórnin ræður hann til verka. Stjórnin hefur þá varla ráðið hann og veitt honum umboð heldur fjármálaráðuneytið sjálft enda lágu samningar við ráðuneytið og önnur skjöl um Lindarhvol fyrir á fyrsta stjórnarfundi!
Samkvæmt skipuriti frá Lindarhvoli var Steinar Þór Guðgeirsson skilgreindur sem „Framkvæmdarstjórn/rekstur“. Við málaferlin í Lindarhvolsmálinu sagðist hann einungis hafa verið ábyrgðarlaus ráðgjafi og gerði þannig lítið úr sínu starfi og ábyrgð en framkvæmdastjóri einkahlutafélags ber ríka ábyrgð á því sem gerist í félaginu.
Ítarlegar og faglegar reglur gilda um sölu fasteigna, mun ítarlegri en sala á milljarða eignum Lindarhvols sem voru í sjoppulegu söluferli að sögn lykilvitnis í Lindarhvolsmálinu.
Kallar á skýr svör og ábyrgð
Í greinargerðinni kemur fram að samvinna Hauks C. Benediktssonar, sem var framkvæmdastjóri Eignasafns Seðlabanka Íslands og stjórnarmaður í Lindarhvoli var mikil á náin. Haukur eignaðist einkahlutafélagið Hraunból úr hendi Steinars Þórs án endurgjalds að því er virðist en félagið var með eigið fé að fjárhæð um 20 milljónir. Engin svör hafa borist frá Seðlabankanum um eðli þessara viðskipta þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, en Haukur er nú framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands.
Þá virðist salan á Klakka hafa verið samþykkt í stjórn Lindarhvols án þess að Steinar Þór hafi upplýst stjórnina um lykilupplýsingar varðandi tilboð og fyrirvara þeirra. Er það athyglisvert í ljósi þeirra ávirðinga sem Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun hafa beint gegn stjórnendum Íslandsbanka og Bankasýslunnar vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka í fyrra.
Skúli Eggert Þórðarson, höfundur hvítþvottarskýrslunnar um Lindarhvol, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, auk núverandi ríkisendurskoðanda, hljóta nú að verða að svara því hver munurinn er á sölu Íslandsbankahlutarins og sölu eigna Lindarhvols þar sem ríkið virðist hafa orðið af milljörðum, jafnvel milljarðatugum þegar allt er talið til.
Þá hlýtur Birgir Ármannsson að vera krafinn svara um það hvers vegna hann hefur reynt að halda upplýsingum frá Alþingi og þjóðinni um jafn alvarlegt og afdrifaríkt sleifarlag við ráðstöfun ríkiseigna og greinargerð Sigurðar lýsir.