Mikilla úrbóta þörf í húsnæðismálum, segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, verðandi framkvæmdastjóri SA en málefnið er meðal annars rætt í hlaðvarpsviðtali hennar við Markaðinn á Eyjunni sem er í umsjón Ólafs Arnarsonar.
Sigríður Margrét bendir á að frá aldamótum hefur húsnæðisliðurinn hækkað úr 22 prósentum af útgjöldum heimilanna í um þriðjung. Það er varhugaverð þróun í ljósi þess að aðgengi að húsnæði og möguleikinn á að eignast húsnæði er lykilþáttur hvað lífskjör varðar.
Húsnæðiskostnaður er langstærsti einstaki kostnaðarliður heimilanna. Eigið húsnæði getur skipt öllu máli fyrir efri árin.
„Ég held að við getum öll verið sammála um að staðan er ekki góð þegar kemur að húsnæðismálum,“ segir Sigríður Margrét og bætir við: „Staðan í dag er annars vegar sambland af uppsöfnuðum framboðsvanda og hins vegar áhrifum vaxtahækkanna á framtíðarafborganir af húsnæði og möguleikum einstaklinga að komast inn á húsnæðismarkaðinn.“