Ísland er afskekkt eyja í Norður-Atlantshafi. Allar lægðir og hæðir á norðurhveli jarðar hafa hér viðkomu og stjórna rysjóttu veðurfari. Íslenskan á óteljandi orð yfir rigningu af öllum stærðum og gerðum. Helsta umtalsefnið í öllum sundlaugapottum landsins er veðurfarið. Þrátt fyrir þetta nána sambýli þjóðar og veðurs kemur það sífellt á óvart.
Ein helsta þjóðaríþrótt landans er veðurvælið. Fólk barmar sér með spekingssvip undan suðvestanátt og rigningu.
Þorlákur Þórhallsson biskup á Skálholti á 12. öld var heilagasti kirkjunnar maður. Gott þótti að heita á hann til heilbrigðis og kraftaverka. Best þótti þó að heita á Þorlák til veðurs. Ástæðan var sú að hann „lastaði aldrei veðrið.“ Þorlákur tók öllu veðri með æðruleysi enda vissi hann að veðrið á Íslandi er síbreytilegt. Íslendingar sem fluttu til Kanada á 19. öldinni söknuðu ávallt breytileikans í íslenskri veðráttu enda höfðu þeir ekkert skemmtilegt að tala um og leiddust út í endalausar deilur um bókstafstrú.
Mestu skiptir því að nálgast veðrið með þolinmæði og æðruleysi eins og heilagur Þorlákur og heita á hann ef mikið liggur við. Áheitin geta verið af ýmsum toga en best er að lofa siðferðislegri betrun. Stjórnmálamenn geta þannig lofað að hætta að ljúga í nokkra daga. Bankastjórar lofa því að hætta að blekkja bankaeftirlitið og Arnar Gunnlaugsson knattspyrnuþjálfari heitir því að hætta að segja fokk í 3-4 daga. Slík heit munu hafa góð áhrif á veðrið og túrismann í landinu og auka hróður Þorláks helga.
Í Hávamálum stendur: Veður ræður akri/en vit syni.
Veðrið stjórnar akuryrkjunni en það má ekki stjórna manninum.