„Það eru forréttindi að fæðast sem kona með áhuga á viðskiptum á Íslandi,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Lyfju og verðandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Ólaf Arnarson í hlaðvarpsþættinum Markaðnum á Eyjunni.
Hún segir það vera u-beygju á sínum ferli að söðla nú um og fara frá því að stjórna fyrirtæki, úr starfi sem er ótrúlega spennandi og gefandi sem hún hafði séð fyrir sér að gegna í að minnsta kosti 20 ár, í að stýra heildarsamtökum fyrirtækja á Íslandi. Henni hafi hins vegar fundist að ekki væri hægt að víkja sér undan því að takast á við þetta nýja verkefni.
Sigríður Margrét segist snemma hafa áttað sig á því að tíminn er nokkuð sem við eigum ekki nóg af og því hafi hún alla ævina verið að flýta sér. Hún valdi sér hagnýtt þriggja ára viðskiptanám á Akureyri frekar en að vera meiri tíma í fræðilegra námi í sömu grein í Reykjavík.
Það átti eftir að reynast henni gæfuspor því fyrir norðan kynntist Sigríður Margrét manninum sínum, eignaðist tvo drengi og endaði með að búa þar í níu ár.
„Ég má samt ekki kalla mig Akureyring því maður verður víst að búa þar í tuttugu ár til þess,“ segir Sigríður Margrét og hlær.