fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Play stendur sig betur en Icelandair

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 26. júní 2023 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ferðavefurinn Túristi segir frá því í dag að árlegur listi yfir 100 bestu flugfélög heims hafi verið birtur í gær.

Listinn er tekinn saman af alþjóðlega rannsóknar- og greiningarfyrirtækinu Skytrax sem sérhæfir sig í að kanna og meta gæði flugvalla og flugfélaga um allan heim. Segir á heimasíðu fyrirtækisins að markmið þess sé að nýta þekkingu sem það öðlast með rannsóknum sínum til að breyta flugiðnaðinum til hins betra.

Þau flugfélög sem standa sig best og enda efst á listanum ár hvert eru verðlaunuð. Auk þess að verðlauna efsta flugfélagið eru veitt verðlaun í ýmsum undirflokkum eins og til dæmis fyrir mesta hreinlætið, besta viðskiptafarrýmið og fyrir bestu flugþjónana og flugfreyjunnar.

Listi Skytrax ber titilinn Skytrax World Airline Awards og byggir á ítarlegum könnunum sem gerðar eru meðal farþega. Farþegar tilnefna flugfélög sem þeim þykja hafa skarað fram úr og veita þeim einkunnir á bilinu 1-5 í hinum ýmsu flokkum. Eru einkunnir veittar fyrir meðal annars hversu vinaleg áhöfn í farþegarými er og hversu góð hún er að leysa vandamál sem upp kunna að koma. Meðal annarra flokka sem farþegar veita einkunnir fyrir eru þægindi sæta, hreinlæti um borð, hversu vel innritun gengur fyrir sig, gæði máltíða um borð og afþreying sem boðið er upp á.

Efsta flugfélagið í ár og þar með það besta í heimi er Singapore Airlines. Í öðru sæti er Qatar Airways og því þriðja er All Nippon Airways frá Japan.

Af íslensku flugfélögunum er það að segja að Play er í 91. sæti en Icelandair nær ekki inn á listann yfir 100 bestu. Á vef verðlaunanna er einkunnir flugfélagana ekki sundurliðaðar en um Play segir að það sé besta lággjaldaflugfélag í Norður-Evrópu og það flugfélag í Evrópu sem hafi tekið mestum framförum. Play endaði í sæti númer 167 árið 2022.

Icelandair nær hins vegar ekki inn á listann yfir 100 bestu flugfélög heims. Félagið náði síðast inn á listann árið 2019 og var þá í sæti númer 100. Icelandair náði heldur ekki inn á listann árin 2021 og 2022 (það var enginn listi birtur fyrir árið 2020) en var, samkvæmt Túrista, í sætum 73-88 á árunum 2012-2018.

Play líka stundvísara

Samkvæmt könnun Túrista á stundvísi flugferða frá Keflavíkurflugvelli á tímabilinu 10. maí til 8. júní, á þessu ári, fóru 60,7 prósent flugferða Icelandair í loftið samkvæmt áætlun en 87,4 prósent ferða Play. Þegar kemur að lendingum á Keflavíkurflugvelli hækkar hlutfallið hjá Icelandair í 70,3 prósent og eilítið hjá Play, upp í 88,8 prósent. Play var því stundvísari á þessu tímabili en Icelandair þegar kemur að bæði lendingum og brottförum á Keflavíkurflugvelli.

Túristi setur þann fyrirvara að flugfloti Icelandair sé mun stærri en á móti komi að félagið hafi miklu lengri reynslu af flugrekstri en Play.

Það má því segja að þegar kemur að upplifun og ánægju farþega sem og stundvísi sé Play að standa sig betur en Icelandair um þessar mundir.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt