fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Eyjan

Gunnar Smári um Twitter – „Fólk um þrítugt sem getur ekki beðið eftir að verða innhringjandi á Útvarpi Sögu þegar það verður sjötugt“

Eyjan
Mánudaginn 26. júní 2023 12:29

Gunnar Smári.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson, samfélagsrýnir og ritjstóri segist ekki botna í fólki sem er hrifið af ritskoðun. Gunnar, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar  segir það sérstaklega skrýtið ef vinstra fólk fagni tilburðum til ritskoðunar:

„Ég næ því ekki þegar ég sé fólk fagna ritskoðun. Hvort sem það er í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum. Ég er í grunninn blaðamaður og sem slíkur get ég ekki verið hrifinn af neinni tegund af ritskoðun. Við finnum það alveg á Samstöðinni að það koma tímar þar sem er eins og það hafi verið settur hattur á okkur og allt í einu nær efnið okkar til miklu færra fólks. Svo ætlar maður að fá einhverjar skýringar og þá ertu bara að tala við einhverja gervigreind á Indlandi,“ segir Gunnar Smári og heldur áfram:

„Við verðum aðallega vör við þetta á Facebook og þess vegna höfum við reynt að byggja upp aðrar dreifileiðir líka. En reyndar ekki á Twitter, enda týndi ég aðganginum mínum og er því ekki þar inni. Enda hefur mér alltaf fundist Twitter skrýtið fyrirbæri. Fólk um þrítugt sem getur ekki beðið eftir að verða innhringjandi á Útvarpi Sögu þegar það verður sjötugt. Aðeins önnur áhugamál og tilvísanir, en nákvæmlega sami ákafinn og sama stemmningin vinstri flokka á Íslandi hafa færst gríðarlega mikið til hægri og það sé hinn raunverulegi sigur nýfrjálshyggjunnar.“

Ekki hrifinn af þeirri þróun

Gunnar Smári segist ekki hrifinn af þeirri þróun að fara áratugi eða árhundruð aftur í tímann til að finna breyskleika fólks og útskúfa list eða öðru sögulegu vegna breyskrar hegðunar:

„Það hefur lengi verið í gangi að fólk rífur niður hetjur sínar. En þetta er komið býsna langt. Nú má varla vísa í neinar persónur sögunnar, af því að þær standast ekki kröfur okkar. Mér finnst þetta vera röng manngildishugmynd. Ekki af því að maður sé að blessa slæma hegðun, en ég ennþá lítill drengur sem spyr hvað Jesú hefði gert. Það á að vera hægt að hata syndina en elska syndarann. Það er ómannlegt ef við getum ekki fundið til með breyskleikum fólks. Ef að þú vilt refsa öllum linnulaust fyrir misgjörðir sínar, þá er staður fyrir það sem kallast helvíti. Ég hef engan áhuga á að vera þar.”

Segir mælikvarða hafa færst til

Gunnar Smári segir alla mælikvarða hafa færst til í stjórnmálum á undanförnum áratugum

„Sjálfstæðisflokkurinn í dag er allt annar flokkur en sami flokkur árið 1960. Þá gat Sjálfstæðisflokkurinn samþykkt ýmsa hluti frá verkalýðshreyfingunni, en í dag er hann á móti öllu sem kemur frá verkalýðshreyfingunni og meira að segja á móti verkfallsrétti. Að sama skapi er Samfylkingin í dag allt annar flokkur en Alþýðuflokkurinn var. Þetta eru gjörólíkir flokkar. Alþýðuflokkurinn átti ekki í neinum vandræðum með að standa bara með þeim sem minna mega sín og hafa það verst. Sigur nýfrjálshyggjunnar var fyrst og fremst að vinstrið hafi tekið upp nýfrjálshyggjuna. Verkalýðshreyfingin og vinstrið gáfu í raun eftir baráttuna og eftir það varð ekki aftur snúið. Menn eins og Tony Blair og Bill Clinton komust til valda með efnahagsstefnu hægrisins þó að þeir ættu að vera vinstra megin miðað við sín lönd,“ segir Gunnar Smári, sem telur að Íslendingar almennt upplifi sig svikna af stjórnmálum og stjórnmálamönnum í heild sinni:

„Einhvern tíma tók ég upp á því að hringja „random“ í fólk á Íslandi sem ég þekkti ekki og spurði það hvort það vildi tala við mig um stjórnmál. Bara til að reyna að komast út úr bergmálshellinum og fá smá tilfinningu fyrir því hvað venjulegt fólk væri að hugsa. Ég hringdi í um 120 manns og mín upplifun var sú að svona 80% af Íslendingum upplifi sig svikið af stjórnmálunum. Margir upplifa sig djúpt svikna. Það hafi sett traust sitt á fólk sem hafi síðan bara gert eitthvað allt annað eftir kosningar. Þessi óvísindalega tilraun mín er ekki það eina sem bendir í þessa átt. Traust Íslendinga á þjóðþingi landsins er bara um helmingur af því sem það er á hinum Norðurlöndunum.“

Hætt að geta tekið gagnrýni

Gunnar segir stjórnmálamenn og suma fjölmiðlamenn algjörlega hætta að geta tekið við gagnrýni, sem valdi því að menn missi jarðsamband.

„Í gamla daga var borgarstjóri með opinn tíma þar sem venjulegt fólk gat hitt hann. Ég nýtti mér það einu sinni og heimsótti Davíð Oddsson sem þá var borgarstjóri. Hann sagði mér að þetta hafi tryggt sér jarðsamband. Að fá að hitta venjulegt fólk og taka við ábendingum og gagnrýni. Fólk í valdastöðum á aldrei að koma sér í burtu frá þessarri jarðtengingu. Ég man þegar ég var ritstjóri og fólk var að segja upp áskrift vildi ég fá að heyra í því. Maður verður að fá að heyra gagnrýni og taka mark á henni. Við erum upp til hópa orðin allt of léleg að taka við gagnrýni. Það hjálpar engum að vera bara í samskiptum við já-fólk og fá aldrei endurgjöf. Blaðamenn og stjórnmálamenn sem kvarta undan gagnrýni ættu bara að gera eitthvað annað. Ef þú þolir ekki hittann er best að fara úr eldhúsinu.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Gunnar og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Furðar sig á hræsni Sjálfstæðismanna í ljósi sögunnar – „Getur verið að Hildur vilji bara sjálf fá þessi embætti?“

Furðar sig á hræsni Sjálfstæðismanna í ljósi sögunnar – „Getur verið að Hildur vilji bara sjálf fá þessi embætti?“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingmaður segir „fullorðnum smábörnum“ til syndanna

Þingmaður segir „fullorðnum smábörnum“ til syndanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður