fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Fálkaorðan bara fyrir suma – Hvað hefur þetta fólk fram yfir þig og mig?

Svarthöfði
Þriðjudaginn 20. júní 2023 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði hefur lengi alið með sér leyndan draum um að vera heiðraður fyrir framlag sitt til samfélagsins. Framlag Svarthöfða er margvíslegt og umfangsmikið og þar sem hann er lítillátur og tranar sér lítt fram er oft hljótt um þau verk. Svarthöfði hefur því ekki gert sér vonir um að vera valinn manneskja ársins á Rás 2 eða Bylgjunni en fremur beint sjónum sínum að hinni íslensku fálkaorðu sem orðunefnd og forseti lýðveldisins sæma vel valda einstaklinga tvisvar á ári, á nýársdag og 17. júní.

Ár hvert þegar líða fer að jólum tifar hjarta Svarthöfða eilítið hraðar en venjulega; eftirvænting eftir nýársdegi sem snýst svo í vonbrigði og höfnunartilfinningu milli jóla og nýárs þegar ljóst verður að ekkert boðskort kemur frá forsetaembættinu fyrir þessi áramót, engin fálkaorða. Um sauðburðinn byrjar svo allt upp á nýtt og Svarthöfði getur ekki á sér heilum tekið fyrr en löngu aftir að dagurinn tekur að styttast.

Svarthöfði skilur ekki hvernig á því stendur að orðunefnd hunsar hann. Ár eftir ár horfir hann yfir orðuhafahópinn og sér að hann á það sameiginlegt með honum að enginn veit hvaða fólk þetta er eða hvað það gerir. Hvað hefur þetta fólk fram yfir Svarthöfða? Hví fær það fálkaorðu en ekki hann?

Um helgina var Svarthöfða bent á að sá væri munurinn á honum og handhöfum fálkaorðunnar að Svarthöfði er ekki opinber starfsmaður. Fálkaorðan sé viðurkenning til opinberra starfsmanna og helst ekki annarra, eins og sjá megi af samsetningu orðuhafanna á þjóðhátíðardaginn þetta árið.

Fálkaorðan hefur lengi verið umdeild og sitt sýnist hverjum um mikilvægi hennar. Mörgum er mikið í mun að vera sæmdir orðu en aðrir gagnrýna það sem prjál og óþarfa eða gera hreinlega grín að fyrirbærinu. Svarthöfði er ekki í þeim hópi.

Komið hefur fyrir að háttsettir íslenskir stjórnmálamenn hafi vísvitandi hafnað því að taka við fálkaorðunni. Sjálfsagt þykir að allir forsætisráðherrar hljóti fálkaorðu af hæstu gráðu. Nokkrir þeirra hafa hins vegar hafnað henni. Steingrímur Hermannsson þáði ekki orðu á sínum tíma og Jóhanna Sigurðardóttir hafnaði margsinnis orðu úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar. Hvorki Katrín Jakobsdóttir né Bjarni Benediktsson hafa þegið orðu sem forsætisráðherrar á seinni árum.

Meirihluti landsmanna starfar í einkageiranum, alla vega enn sem komið er. Innan við helmingur vinnumarkaðarins telst til opinbera geirans en flestar orður ganga til opinberra starfsmanna að sögn fyrir vel unnin störf eða jafnvel afrek. Meirihluti þjóðarinnar sem starfar á hinum frjálsa vinnumarkaði sinnir þá væntanlega störfum sínum ekki vel og vinnur engin afrek.

Meðal þeirra opinberu starfsmanna sem fengu orðu að þessu sinni voru lögreglumaður, tveir prófessorar við ríkisháskólann, félagsráðgjafi, jarðaskjálftafræðingur, tveir kennarar og forstjóri menningarhúss vegna starfa í þágu menningar og ferðamála. Enginn forystumaður í ferðaþjónustufyrirtækjum, sem unnið hafa mikil afrek í þágu þjóðarinnar, er þarna á blaði. Þá er þess að geta að tveir bændur voru sæmdir fálkaorðunni. Er það í takt við annað, þegar kemur að fálkaorðunni, þar sem landbúnaðurinn er vitanlega að mestu á framfæri skattgreiðenda. Vafalaust er þetta fólk allt saman vel að viðurkenningunni komið – en Svarthöfði bendir enn á að það hallar á frjálsa vinnumarkaðinn.

Í orðunefnd sem er forsetanum til ráðuneytis um orðuveitingar sitja nú fyrrverandi rektor ríkisháskólans, fréttamaður ríkissjónvarpsins, fyrrverandi sendiherra, fyrrverandi þingmaður og skólastjóri. Allir nefndarmennirnir eru núverandi eða fyrrverandi opinberir starfsmenn.

Svarthöfði telur útséð um að hann fái nokkurn tíma fálkaorðuna – nema náttúrlega hann söðli um og gerist opinber starfsmaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!