Guðrún Hafsteinsdóttir tekur við embætti dómsmálaráðherra af Jóni Gunnarssyni á morgun á ríkisráðsfundi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti þetta á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins sem hófst klukkan 12 í Valhöll í dag.
Við myndun núverandi ríkisstjórnar var strax lagt upp með að Guðrún tæki við af Jóni, sem verður að veruleika eins og áður sagði á morgun. Stuðningsmenn Jóns eru sagðir hafa þrýst á að hann fengi að sitja áfram sem ráðherra.
Bjarni segist ekki óttast sundrung vegna ákvörðunarinnar, sagði hann Jón hafa staðið sig afburðavel sem ráðherra og hann njóti stuðnings sjálfstæðismanna um allt land en Bjarni hefði trú á að Guðrún gæti komið og fylgt því vel eftir.
Bjarni sagði ákvörðunina hafa verið erfiða að því leyti að ráðherraefnin í flokknum væru fleiri en stólarnir í boði. Með Guðrúnu sem ráðherra eru konur í fyrsta sinn í meirihluta í ráðherraliði flokksins.