Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason er á því að 17. júní hátíðarhöldin í Reykjavík hafi um langt skeið verið hálf vandræðleg og lítið sé lagt í verkefnið. „Það er eins og borgarstjórninni þyki ekki vænt um þennan dag – líkt og hátíðin sé bara haldin af skyldurækni. Það leynir sér a.m.k. ekki að borgarstjórnin er hrifnari af Gay Pride og Menningarnótt en sautjándanum. Svoleiðis er það bara,“ segir Egill í pistli á Facebook-síðu sinni þar sem hann fer meðal annars yfir hálfgleymdan kafla í hátíðarsögu dagsins þegar hátíðardagskráin var flutt í Laugardalinn.
„Íhaldið stjórnaði borginni og var frekar i nöp við Miðbæinn. Það var talað um nýjan miðbæ sem átti að rísa í Kringlumýri – jú, þar er Kringlan nú – en í Laugardal risu glæsileg íþróttamannvirki: Laugardalsvöllurinn, Laugardalshöllin og Laugardalslaugin með svo stórri stúku að ætla mætti að helsta skemmtun landans væri að horfa á sundkeppni. Um miðjan sjöunda áratuginn fannst borgarstjórninni ekki lengur nógu gott að bjóða upp á hátíðarhöldin 17. júní á Arnarhóli og á götum Miðbæjarins. Nei, hátíðin var flutt í heilu lagi inn í Laugardal. Þangað fóru borgarbúar, missáttir þó. Mér er í barnsminni að hafa hlýtt á ávarp Fjallkonunnar á Laugardalsvelli. Þá tók við fimleikasýning, glíma og svo horfði maður á kúluvarp. Ég segi ekki að hafi verið austantjaldsbragur á þessu – og þó. Einnig var boðið upp á sundmót sem gestir gátu notið í hinni gríðarmiklu stúku sem aldrei hefur tekist að fylla,“ skrifar Egill.
Hátíðarhöldin voru þó frekar misheppnuð.
„Þetta var satt að segja ekki mikil skemmtun – hátíðargestum hundleiddist flestum og nokkrum árum síðar var 17.. júní aftur fluttur niður í bæ,“ skrifar Egill.
Pistillinn hefur vakið talsverð viðbrögð eins og vangaveltur Egils gera iðulega. Tók kollegi hans Illugi Jökulsson meðal annars undir.
„Ég hef oft hreyft þeirri hugmynd að gera 17. júní að einskonar óopinberum hátíðisdegi íslenskrar sögu almennt og sérstakt. Það mætti gera með ýmsu móti. En enginn hefur nokkru sinni nennt að leggja eyrun við. 17. júní er algjört olnbogabarn,“ skrifar Illugi.