Fljótlega munu allir fatlaðir eiga rétt á sundlaug heima hjá sér og þeir sem hafa upplifað mótlæti í lífinu munu eiga rétt á bótum, allt á kostnað skattgreiðenda. Þetta skrifar Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og varaþingmaður í pistli sem birtist á Eyjunni í dag.
Brynjar segir Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, vera mjög upptekna af því að hér verði komið á fót Mannréttindastofnun, enn einni stofnuninni sem skattgreiðendur eigi að fjármagna en kjörnir fulltrúar hafi ekkert með að gera.
Í þessari stofnun segir Brynjar að safnað verði saman umboðslausum aktivistum í mannréttindum, „Þórhildum Sunnum þessa lands“, sem eigi að hafa endanlegt vald í mannréttindamálum. Þetta segir hann að muni auka ríkisútgjöld mjög og spáir því að allir fatlaðir muni fá rétt á sundlaug heima hjá sér og allir sem telji sig hafa mætt mótlæti í lífinu eigi rétt á bótum úr hendir skattborgara.
Brynjar segir þá þróun að kjörnir fulltrúar afhendi umboðs- og ábyrgðarlausum aktivistum völdin ekki einskorðast við mannréttindamál og ekki heldur við ísland. Benda megi á málefni flóttamanna og umhverfismál. Þetta sé að gerast víðar en hér á landi og meðal annars hafi pólitískir aktivistar fengið afhent völdin í nánast öllum nefndum og stofnunum Evrópuráðsins.
Pólitískir aktivistar eru að sögn Brynjars alla jafna ofstækisfólk og fái það völdin afhent endi það alltaf í fjárhagslegu og andlegu þroti. Heildarhagsmununum sé fórnað, enda skipti þeir þetta fólk engu máli.
Pistilinn í heild má lesa hér.