fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Thomas Möller skrifar: Tvær þjóðir

Eyjan
Þriðjudaginn 13. júní 2023 09:38

Thomas Möller er varaþingmaður Viðreisnar í SV kjördæmi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á námsárum mínum í Berlín var alltaf talað um þær tvær þjóðir sem bjuggu í Þýskalandi: Austur Þjóðverja og Vestur Þjóðverja. Gífurlegur munur var á kjörum og ferðafrelsi þessara tveggja þjóða. Eftir sameininguna býr nú ein þjóð í landinu.

Á Íslandi búa tvær þjóðir í mörgum skilningi. Þeir sem búa í eigin húsnæði og þeir sem leigja eru eins og tvær ólíkar þjóðir svo eitt dæmi sé tekið. Um 300 stærstu útflutningsfyrirtækin nota erlendan gjaldmiðil í rekstri sínum og geta tekið mun hagstæðari lán en hin fyrirtækin sem þurfa að láta flöktandi krónu duga með allt að fjórum sinnum dýrari lántökum.

Svo má nefna að um helmingur þjóðarinnar vill banna hvalveiðar, um helmingur vill sækja um aðild að ESB og um helmingur segir pulsa meðan hinn helmingurinn segir pylsa!

Bara ekki í alþingiskosningum.

En langversta dæmið um tvær þjóðir í þessu landi er misvægi atkvæða í alþingiskosningum en þar hefur um helmingur kjósenda, þeir sem búa á suðvesturhorni landsins, aðeins hálft vægi atkvæða miðað við kjósendur á landsbyggðinni.

Þetta þýðir að á landsbyggðinni þarf um helmingi færri atkvæði til að kjósa þingmann á Alþingi en á suðvesturhorninu.

Þetta misvægi endurspeglast einnig í því að landsbyggðin er með hlutfallslega fleiri þingmenn í nefndum þingsins. Að vísu er þetta misvægi leiðrétt að hluta til með uppbótarþingmönnum, en misréttið er hið sama.

Í öllum öðrum kosningum á Íslandi gildir sama vægi allra atkvæða: í forsetakosningum, kosningum um þjóðaratkvæði, sveitarstjórnarkosningum, í hlutafélögum, húsfélögum, íþróttafélögum og stéttarfélögum. Bara ekki í alþingiskosningum.

Spilling?

Þetta er eitt mesta mannréttindabrot sem framið er í landinu okkar, og flestum er alveg sama! Þeir stjórnmálaflokkar sem græða á þessu óréttlæti vilja ekki breyta kerfinu. Það er í sjálfu sér skilgreining á spillingu að mínu mati.

Misvægi atkvæða í alþingiskosningum á Íslandi hefur verið deiluefni í áratugi. Ekkert land í heiminum viðhefur mismunun í eins miklum mæli og Ísland. Í flestum 196 löndum heims gildir eitt atkvæði – einn kjósandi.

Nýlega kom fram að misvægið í síðustu kosningum jafngilti því að 53.000 kosningabærra manna á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík og Suðvesturhornið) hafi ekki haft kosningarétt. Það samsvarar því að öll greidd atkvæði Hafnfirðinga, Kópavogsbúa og Garðbæinga voru ekki talin í kosningunum 2021, þeim var einfaldlega stungið undir stól!  Klúðrið í Borgarnesi er smámál miðað við þessi ósköp.

Rökin sem hafa verið nefnd fyrir þessu misvægi eru að landsbyggðin hafi minna aðgengi að stjórnkerfinu en aðrir íbúar landsins. Samt misstu Vestfirðingar allan sinn kvóta og landsbyggðin fær nánast engar tekjur af virkjunum á sínu svæði. Hvar eru rökin fyrir lélegu aðgengi?

Jafnt vægi er mannréttindamál.

Í nýlegri grein um  málið sem Þorkell Helgason skrifar segir að „ójafn atkvæðisréttur kjósenda er á skjön við almennt jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.“  Og síðar segir hann að „misvægi atkvæða fær ekki staðist til lengdar. Stjórnlagaráð lagði vitaskuld til að allir hefðu sama atkvæðisrétt og það sjónarmið var staðfest af tveimur þriðju hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.“

Ísland hefur fengið ákúrur frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu vegna þessa ójafna kosningaréttar. Feneyjarnefnd ESB hefur margsinnis bent á þetta óréttlæti án nokkurra viðbragða stjórnvalda.

„Spyrja má hvort Mannréttindadómstóll Evrópu kunni að taka í taumana, eins og gerst hefur í öðrum stórmálum okkar,“ segir Þorkell.

Starri Reynisson birti nýlega grein um þetta mál þar sem hann sagði meðal annars að „kosningarétturinn telst til grundvallarmannréttinda og misvægi atkvæða er gróf aðför að honum.“

Ég tók eftir því nýlega að hin svokallaða „Loftbrú“ veitir 40% afslátt af flugferðum innanlands sem gildir aðeins fyrir landsbyggðarfólk, ekki íbúa á suðvesturhorninu! Misvægið er að virka þarna að minnsta kosti.

Fyrr á öldum var misvægi atkvæða eftir kynjum og fjárhag. Ríkir karlmenn voru með mesta atkvæðavægið. Í dag er mismunað eftir búsetu sem er jafnslæmt.

Samkeppnisstaða landsins.

Ísland er í samkeppni við önnur lönd á ýmsum sviðum um lífskjör og mannréttindi. Heildarhagsmunir í stað sérhagsmuna eru hluti af þessari samkeppni. Fólk vill ekki búa við mannréttindabrot eins og misvægi atkvæða.

Fyrirtæki vilja ekki koma þangað þar sem sum þeirra búa við betri rekstrarkjör en önnur eins og nefnt var í upphafi þessarar greinar.

Með jöfnu vægi atkvæða myndi samheldni þjóðarinnar aukast og sátt í þessu máli væri til bóta fyrir alla landsmenn.

Ágæti lesandi sem býrð á suðvesturhorninu: Ertu sátt(ur) við að hafa aðeins hálft vægi í næstu alþingiskosningum sem fara fram eftir tvö ár. Viltu verða hálfdrættingur einu sinni enn? Spurðu þingmanninn þinn hvort hann vilji ekki breyta þessu.

En það er von. 

Viðreisn hefur einn flokka lagt fram á Alþingi frumvarp um að jafna atkvæðavægi að fullu. Það er full ástæða til að hvetja þingmenn flokksins til dáða í þessu máli.  Viðreisn hefur gert þetta mál að grundvallaratriði í stefnuskrá sinni og krefst fullrar jöfnunar atkvæðisréttar í landinu. Það gerist aðeins ef Viðreisn kemst til valda í landinu.

Misvægi atkvæða er misvægi mannréttinda. Einn maður – eitt atkvæði er krafa dagsins!

Höfundur er varaþingmaður og stjórnarmaður í Viðreisn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK