Reynir Ingi Árnason hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra hjá ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækinu Expectus.
Reynir Ingi er með meistarapróf í hagfræði og fjármálum frá Copenhagen Business School og hefur starfað hjá Expectus undanfarin sjö ár en þar áður starfaði hann um skeið hjá Deloitte. Hann kemur nú í hóp stjórnenda félagsins með Helgu Dögg Björgvinsdóttur rekstrarstjóra og Kristni Má Magnússyni tæknistjóra. „Ég er í senn ánægður og þakklátur fyrir þetta frábæra tækifæri og það traust sem mér er sýnt og ég er verulega spenntur fyrir þeim verkefnum sem fram undan eru. Expectus er mjög öflugt fyrirtæki og ég mun sannarlega njóta góðs af þeim sterka grunni sem forverar mínir í starfi hafa byggt undir reksturinn á undanförnum árum,“ segir Reynir.
Ragnar Þórir Guðgeirsson stjórnarformaður Expectus segir það ánægjulegt að Reynir taki við sem framkvæmdastjóri og hann sé verðugur arftaki Sindra Sigurjónssonar sem nú hefur horfið til annarra starfa. „Fyrirtækið hefur enn fremur staðið í ákveðnu breytingaferli sl. tvö ár sem felst í endanlegri uppskiptingu Expectus og systurfélagsins ExMon sem nú lýtur sjálfstæðu eignarhaldi og stjórn. Í framhaldi af því hafa jafnframt orðið þær breytingar á stjórn Expectus að Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, kemur ný inn í stjórnina.
„Það er gífurlega verðmætt fyrir þekkingarfyrirtæki eins og okkar að fá Kristínu að borðinu með alla sína reynslu og þekkingu og við hlökkum til að starfa með henni að áframhaldandi vexti fyrirtækisins,“ segir Ragnar.
Expectus sérhæfir sig í rekstrarráðgjöf, stefnumótun og viðskiptagreind. Fyrirtækið var stofnað 2009 og í dag starfa þar um 25 manns sem öll eru sérfræðingar, hvert á sínu sviði.