fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Fátt er hraðlygnara en almannarómur

Eyjan
Sunnudaginn 11. júní 2023 15:14

Esóp segir dæmisögur í túlkun þýska málarans Johanns Michaels Wittmer.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Oft sannast hið fornkveðna að fátt sé nýtt undir sólinni og stundum er það svo að spakmæli sem þessi koma fram í ólíkum tungumálum á ólíkum tímum. Í hinum ævafornu dæmisögum Esóps (gr. Αἴσωπος), sem mun hafa verið uppi um 620–564 fyrir Krist, má finna orðskviði á borð við að „skreyta sig lánsfjöðrum“, „hverjum þykir sinn fugl fagur“ og „fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús“. Hinn síðastnefndi er líklega þekktari hjá rómverska skáldinu Hóratíusi og oft er vitnað til þessa. Mér þótti það til að mynda eiga sérlega vel við í byrjun liðinnar viku þegar stjórnvöld kynntu dýrtíðarráðstafanirnar sem beðið hafði verið með eftirvæntingu. En kannski áttu menn að geta sagt sér að ríkisstjórn jafnólíkra flokka yrði sem fyrr ófær um að taka ákvarðanir um raunverulegt aðhald í ríkisfjármálunum. Stjórnin gat tekið á málum í faraldrinum ― enda snerist það ekki um annað en eyða meiru og skuldsetja ríkissjóð. Aðhald er aftur á móti „pólitískur ómöguleiki“, svo notuð séu orð fjármálaráðherrans sem féllu af öðru tilefni.

Bjúgverpill

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi  forsætisráðherra, benti á það í pistli hér á síðunni að ríkisstjórnin greindi ekki frá því hversu mikil áhrif hún teldi boðaðar aðgerðir hafa og sennilegasta skýringin á því væri sú að stjórnin hefði sjálf einfaldlega ekki trú á að aðgerðirnar hefðu tilætluð áhrif. Landsmenn yrðu að bíða næstu vaxtaákvörðunar Seðlabankans ― það væri eini áþreifanlegi mælikvarðinn á árangur aðgerðanna.

Þorsteinn benti líka á að í tilkynningu ríkisstjórnarinnar rækist hvað á annars horn. Þar væri grautað saman aðgerðum til að stemma stigu við verðbólgu og ráðstöfunum til að bæta stöðu þeirra sem verst fara út úr afleiðingum verðbólgunnar. Síðara atriðið gæti beinlínis aukið á þenslu ― væru aðgerðirnar ekki fullfjármagnaðar.

Í liðinni viku fór líka fram eldhúsdagur og umræðurnar tilþrifalitlar að vanda en einkum og sér í lagi rætt um efnahagsmálin og (meintar) dýrtíðarráðstafanir stjórnarinnar. Fréttamaður ríkissjónvarpsins átti samtal við forsætisráðherra að þeim loknum en þar sagði ráðherrann gagnrýni stjórnarandstöðunnar hafa komið úr ólíkum áttum, sem styrkti hann í þeirri trú að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar væri hin rétta.

Einhvern veginn þykir mér þessi röksemdafærsla ekki ganga upp og eiginlega snúast gegn ráðherranum eins og bjúgverpill sem er vopn ástralska frumbyggja og þeim eiginleikum gætt að hæfi það ekki skotmarkið kemur það aftur til sendandans ― og gæti hann sín ekki hæfir vopnið hann. Stjórnin er ekki síður sundurlynd en stjórnarandstaðan enda flokkunum raðað vitlaust á vængi samanborið við pólitíkina á hinum Norðurlöndunum.

Ræða sem stakk í stúf

Fram á tuttugustu öld eldaði þorri húsmæðra á hlóðum. Þessi fylgdi að vonum mikið sót og raftarnir í loftinu því kallaðir sótraftar. Þeir voru dustaðir af og til og kallað eldhúsdagur þegar það var gert. Þetta var að vonum sóðalega vinna og nú er það ríkisstjórnin sem er dustuð til á „eldhúsdegi“. Annars held að deila megi um hvort árangur sé af hreingerningunni.

Ræða Ingibjargar Isaksen, formanns þingflokks Framsóknarflokks og fyrsta þingmanns Norðausturkjördæmis, stakk í stúf. Þar var ekki vikið að dýrtíðinni einu orði. Þingmaðurinn gerði þess í stað að umtalsefni afleiðingar þess er menn eru bornir alvarlegum sökum á opinberum vettvangi ― á grundvelli sögusagna:

„Þolandinn sem tjáði sig á netinu til að koma umræðunni af stað missir atburðarrásina úr höndunum því samfélagið hefur tekið að sér dómarahlutaverkið. Það gerist æ oftar að einstaklingar beri öðrum sakir nafnlaust og ábyrgðarlaust. Jafnvel getur verið um þriðja eða fjórða aðila sem tekur málin í sínar hendur, aðilar sem þekkja jafnvel ekki vel til málsins né tengjast því á nokkurn hátt.“

Þingmaðurinn nefndi að æði margir tækju róttæka afstöðu á báða bóga en aðrir veigruðu sér við að tjá sig. Svokölluð „slaufunarmenning“ væri vopn sem hefði „snúist í höndunum á okkur og grafið undan trausti og samkennd í samfélaginu með því að skapa ógn og ala á ótta“. Í því fælist hvorki lausn né sigur fyrir neinn. Þingmaðurinn lýsti því næst einlægum ásetningi sínum að leita leiða til að bæta hér er úr ― en líklega er við ramman reip að draga.

Ég held að það sé einmitt til marks um það hversu eldfimur þessi málaflokkur er að þingmaðurinn vék sér undan að nefna einstök mál og lái honum hver sem vill. Í heimabæ þingflokksformannsins kom nefnilega upp mál sem alltof litla athygli hefur fengið. Þar háttaði svo til að nemandi við Menntaskólann hraktist frá skólanum vegna sögusagna og ásakana. Þessi sami nemandi fluttist suður yfir heiðar og settist á skólabekk í Hamrahlíðinni þar sem ásakanirnar endurtóku sig með fjölmiðlafári. Málið var tekið til gagngerrar skoðunar og í ljós kom að sakir sem hann var borinn áttu sér enga „stoð í raunveruleikanum“ eins það var orðað í úttektinni. Svo fór að Menntaskólinn á Akureyri bað þennan fyrrverandi nemanda afsökunar.

Eiturdropar kjaftháttarins

Líklega hafa fæstir lesið Pilt og stúlku Jóns Thoroddsen og því ekki kynnst persónunni Gróu á Leiti, sem lét eiturdropa kjaftháttarins leka í eyru viðmælenda sinna. Höfundinum tókst að teikna Gróu svo fínlegum dráttum að sagt var að þeir sem hefðu lesið bókina vöruðu sig á rætnum tungum eftirleiðis.

Ef við höldum okkur við heimabæ þingflokksformanns framsóknarmanna, þá var það þar sem kínverski smáhundurinn Lúkas týndist en menn þurfa að vera orðnir að minnsta kosti hálfþrítugir til að muna eftir hvarfi hans. Sögusagnir um skelfilega misþyrmingu dýrsins komust í hámæli. Meintur höfuðpaur í því máli var nafngreindur í vefheimum og mátti sæta hinum svívirðilegustu hótunum meðan taugaveiklaðar sálir fleyttu kertum til minningar um hundinn. Við vitum hvað gerðist svo og eigandinn var að vonum undrandi á skyndilegri upprisu hundsins.

Arnar Kormákur Friðriksson, lögmaður unga mannsins sem sætti hinum upplognu ásökunum, velti upp áleitinni spurningu fyrir skemmstu: hvað ef hundurinn hefði ekki komið í leitirnar? Þá hefði líklega aldrei tekist að hreinsa mannorð unga mannsins. Lögmaðurinn nefndi í viðtali sem birtist í þættinum Eftirmálum á Stöð 2 fyrr á þessu ári að málið ætti vel heima meðal dæmisagna Esóps.

„Sjaldan lýgur almannarómur,“ er Gróa á Leiti látin segja en líklega er fátt hraðlygnara en almannarómur ef betur er að gáð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar