Íslenskum stjórnmálamönnum gengur ekki alltaf vel að horfast í augu við veruleikann. Þeir eru á pari við verkalýðsforingja í þeim efnum þótt þeir hafi ekki enn náð listamönnum. Því frægari sem listamaðurinn er því meira er óraunsæið og flónshátturinn. Margir stjórnmálamenn og listamenn halda að Langreyður við Ísland sé í útrýmingarhættu og að hvalurinn líði vítiskvalir, langt umfram önnur villt dýr sem veidd eru. Og ekki nóg með það heldur trúa þeir að veiðar á þessum 70 hvölum á ári komi í veg fyrir að við getum bjargað loftslaginu á jörðinni. Þeir eru sannfærðir um að því fleiri sem fái mánaðarlega laun frá skattgreiðendum skapi slík verðmæti fyrir samfélagið að engir þurfi að vinna meira. Jafnvel sé hægt að bæta við öllum fátækari í heiminum á framfærslu íslenskra skattgreiðenda.
Þessi vitleysa öll og strútshegðun eru að keyra vestræn lýðræðisríki í þrot. Útgjöld þenjast út og þvingaðar eru fram launahækkanir langt umfram framleiðniaukningu í atvinnulífinu. Þegar hjól atvinnulífsins voru stöðvuð á covid tímabilinu voru laun allra hækkuð á sama tíma svo um munaði. Svo skilur enginn í því að verðbólgan hafi rokið upp og vextir hækki. Stjórnmálamenn ýta á undan sér vandanum og þora ekki að koma hreint fram. Þarf Seðlabankastjóra og fyrrverandi þingmann til að segja það augljósa.
Stjórnmálamenn þurfa að segja þessum verkalýðsforingjum að launahækkanir við þessar aðstæður komi verst niður á umbjóðendum þeirra. Eina augljósa lausnin er að frysta allar launahækkanir í bili og þá mætti lækka laun í æðstu lögum um 5-10% tímabundið til að ná sátt. Þá þarf að stöðva þennan útgjaldaflaum úr ríkissjóði og hagræða í rekstri. Í slíkum tímabundnum aðgerðum þarf að tryggja að þeir sem standa höllum fæti missi ekki fótanna og geti haldið íbúðarhúsnæði sínu. Öll þurfum við jú þak yfir höfuðið.
Við náum engum árangri í þessari glímu við verðbólgudrauginn nema allir horfist í augu við raunveruleikann. Nú er ekki tími lýðskrums og gervipólitíkur heldur þarf kjark og áræðni til að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Við vitum að þær verða óvinsælar en gera má ráð fyrir að því óvinsælli sem þær verði því betri séu þær. Svo má benda stjórnmálamönnum á að skattahækkanir við þessar aðstæður, til að þeir geti úthlutað enn meiri fjármunum eftir geðþótta, eru ekki gagnlegar. Það er eins og að pissa í skóinn sinn. Það er heldur ekki lausn að rjúka til Brüssel í geðshræringu og óska eftir inngöngu af því að vextir eru lægri þar. Vextir eru lágir þar vegna þess að í evrulöndum hefur verið efnahagsleg stöðnun í tvo áratugi. Ekki er heldur lausn á vandanum að stjórnarandstöðuflokkarnir taki við stjórnartaumunum. Eina sem þeir hafa lagt til síðasta áratuginn er meiri ríkisrekstur og aukin útgjöld.