Yfir eitt hundrað konur alls staðar að af landinu komu saman í VÖK Baths á fimmtudaginn og sóttu stofnfund FKA Austurland.
„Markmiðið er að efla konur, stuðla að auknu samtali kvenna á milli, fjölga tækifærum kvenna í atvinnulífinu á Austurlandi ásamt því að tengjast öðrum félagskonum FKA óháð staðsetningu,“ segir Heiða Ingimarsdóttir, ein skipuleggjenda. „Í lok ársins 2012 flutti ég í burtu og fór að mennta mig. Ég kom aftur í mars í fyrra. Það sem ég tók eftir þegar ég sneri til baka er sá ótrúlegi kraftur og sköpunargleði sem einkennir konur á svæðinu. Þær eru duglegar að búa sér og öðrum til tækifæri og styðja hver við aðra. Það eina sem mér fannst vanta var vettvangur sem bindur okkur saman og þá af öllu austurlandi, ekki bara konur á héraði eða bara á fjörðunum. Leggja áherslu á þá styrkleika sem konur á svæðinu hafa og tengja konur saman svo þær geti nýtt styrkleika sína, innsýn og þekkingu saman. Við erum svo mikli sterkari sem ein heild, því þar verða galdrarnir til.“
Þessi sögulegi stofnfundur Félag kvenna í atvinnulífinu á Austurlandi, FKA Austurland var haldinn á Egilsstöðum 25. maí síðastliðinn þar sem FKA konur um land allt voru hvattar til að mæta og skrifa sig inn í söguna. „Við komum ekki að tómum kofanum skal ég segja ykkur. Þetta heppnaðist rosalega vel og við þökkum öllum konum kærlega vel fyrir þátttökuna,“ segir Unnur Elva Arnardóttir, formaður FKA, sem mætti á fundinn ásamt Andreu Róbertsdóttur, framkvæmdastjóra FKA.
„Móttökurnar voru frábærar, mætingin mjög góð og ánægjulegt að sjá fjölbreyttan hóp kvenna á Austurlandi streyma á fundinn,“ segir Sigrún Jóhanna. „Nú er það kvenna á öllu Austurlandi að ákveða hversu bratt þær mæta í fjörið í FKA en næstu skref er að hrista hópinn saman og efla tengslin, svo koma þær af krafti í starfið hjá félaginu sem er bæði blómlegt og fjölbreytt,“ bætir Andrea við.
Sjö kvenna stjórn
Sjö konur taka sæti í stjórn FKA Austurland og tvær eru í varastjórn. Í tilkynningu frá FKA segir að það komi í hlut þessara kvenna að móta starfið út frá gildum og markmiðum félagsins en þróa sinn einstaka stíl sem komi til með að gagnast konum á Austurlandi sem best. Fyrstu stjórn FKA Austurland skipa í stafrófsröð:
Agla Heiður Hauksdóttir ráðgjafi
Hrafndís Bára Einarsdóttir hótelstjóri Hótel Stuðlagil (varakona)
Heiða Ingimarsdóttir verkefnastjóri upplýsinga- og kynningamála hjá Múlaþingi
Jóhanna Heiðdal hótelstjóri Berjaya Iceland Hotel Egilsstöðum
Jóna Björt Friðriksdóttir sérfræðingur á vinnuverndarsviði hjá Vinnueftirliti ríkisins (varakona)
Ragna S Óskarsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri íslensks dúns
Rebekka Rán Egilsdóttir yfirmaður verktakaþjónustu hjá Alcoa í Evrópu
Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir framkvæmdarstjóri hjá 701 Hotels
Valdís Björk Geirsdóttir eigandi snyrtistofunnar Draumey
„Við ætlum ekki mínútu lengur að sóa tækifærum fyrir konur til að skapa sig, endurskapa og vera við borðið þegar við gerum metnaðarfull framtíðarplön til lengri og skemmri tíma litið,“ segir Andrea.
Komnar á kortið
Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri, kynnti starfsemina á fundinum, Unnur Elva, formaður FKA og forstöðumaður hjá Skeljungi, sagði sína reynslusögu sem félagskona, María Ósk Kristmundsdóttir þekkingarstjóri hjá Alcoa Fjarðaráli flutti erindi um stöðu kynjanna til að nýta sér jafnréttið fyrir Austan. Fyrirsvarskonur félagsdeildarinnar nutu stuðnings frá framkvæmdastjóra FKA, Andreu Róbertsdóttur í aðdraganda fundar sem og Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur fyrsta formanni FKA Suðurnesja. Félagskona af Suðurlandi, Elín Káradóttir, eigandi Byr fasteignasölu, sem á rætur sínar að rekja Austur var fundarstjóri og fyrrum stjórnarkona FKA, Rakel Lind Hauksdóttir, fjármála- og fjáröflunarstjóri SOS Barnaþorpa, annaðist tæknistjórn. Fyrirsvarskonurnar tóku að sér hlutverk á fundinum, Heiða Ingimarsdóttir var með erindi á stofnfundinum og Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir tók að sér hlutverk ritara fundar.
„Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths, bar hitann og þungann af skipulagningu fundarins og það var ánægjulegur dagur að sjá deildina verða til á fallegu kvöldi. Alla hefur verið í miklu samtali við framkvæmdastjóra í lengri tíma og henni þökkum við ómælda vinnu og úthald. Við erum komnar á kortið!“ segir Heiða glöð í bragði.
Hefst nú vinna við að kortleggja tækifæri á svæðinu öllu, greina þarfir og konur sem vilja bætast í hópinn á Austurlandi eru hvattar til að skrá sig til leiks á heimasíðu FKA og láta til sín taka. „Athafnakonur, stjórnendur og leiðtogar úr öllum greinum atvinnulífsins mynda þétt og öflugt tengslanet FKA um land allt. Við erum konur á Íslandi, erum alls konar og búum vítt og breytt um landið. Það sem öllu skiptir er að við eflum okkur og setjum okkur á dagskrá því það er dapurt að eldast í eftirsjá og biturleika yfir að hafa ekki gert eitt og annað.
Ef þú vilt hafa áhrif á samfélagsumræðuna, láta til þín taka í nærsamfélaginu, miðla og móta samfélagið í heild þá er þátttaka í FKA frábær leið til þess. Margir verndandi þættir fylgja félagaaðild og saman erum við sterkari líkt og konur á Austurlandi koma nú til með að upplifa á eigin skinni. „Það er landsbyggðaráðstefna á Suðurnesjum í október og þar viljum við hitta þennan magnaða hóp aftur og fá þær suður. Svo eru félagskonur af landinu öllu að koma í kippum Austur í haust og þá eflum við tengslin, fáum að heyra sögur af svæðinu, tökum út stöðuna, gerum jólainnkaupin og leggjum línurnar. Við erum rétt að byrja og ég er spennt að kynnast betur þessum metnaðarfullu uppbyggingaraðilum fyrir Austan!“ segir Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA.