Vilhjálmur Birgsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segist ætla að bíða með fagnaðarlætin varðandi þær hugmyndir að banna 40 ára verðtryggð lán og að breytingar verði gerðar á útreikningi húsnæðisliðsins í vísitölu neysluverðs. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir hann að slíkum loforðum hafi margoft verið slengt fram en að ekkert hafi gerst enda „hagsmunir fjármálaelítunnar sem hafa komið í veg fyrir þessar breytingar til þessa.“
Tilefnið var að Sigurður Ingi Jóhannesson, innviðaráðherra, viðraði þær hugmyndir í samtali við Morgunblaðið að banna áðurnefnd 40 ára verðtryggð lán með lögum auk þess sem að hann lýsti því yfir að landsmenn megi vænta þess breytingar verði gerðar á útreikningi húsnæðisliðsins í vísitölu neysluverðs.
„Vandi okkar á Íslandi er að húsnæðisliðurinn hefur verið rangt reiknaður. Hann byggist fyrir og fremst á kaupverði íbúða, og hoppar til og frá mánaðarlega, á meðan þjóðir með sambærileg viðmið og við eru með öðruvísi útreikninga. Þetta er verkefni sem er búið að vera í gangi hjá Hagstofunni í einhvern tíma og ég vonast til að það fari að skila sér,“ sagði Sigurður Ingi.
Málefnið hefur verið Vilhjálmi mjög hugleikið enda mikið hagsmunamál fyrir launþega að hans mati og margra annarra.
„Ég hef barist fyrir þessu síðustu þrettán árin ásamt fleirum og vonandi er þetta að verða að veruleika, en okkur í verkalýðshreyfingunni hefur reyndar verið lofað því að banna 40 ára verðtryggðlán og breyta útreikningi á neysluvísitölunni margoft,“ skrifar Vilhjálmur.
Hann fullyrðir að fyrir liggi að húsnæðisliðurinn í neysluvísitölunni hafi keyrt verðbólguna áfram hér á landi síðustu tíu ár.
„Sem dæmi þá liggur fyrir samkvæmt Hagstofunni að verðbólgan með húsnæðisliðnum inni er frá apríl 2013 til apríl 2023 43,54% eða að meðaltali 4,34% á ári. En án húsnæðisliðar eru verðbólgan á sama tímabili 24,4% eða 2,44% að meðaltali sem er undir lægri verðbólgumarkmiðum Seðlabankans,“ skrifar Vilhjálmur.
Á þessu sést, að hans mati, að það er hækkun á fasteignaverði sem hefur keyrt 56% af verðbólgunni áfram hér á landi.
„Þetta vita stjórnvöld og Seðlabankinn en til þessa ekkert gert í því. Hins vegar stendur ekki á þeim að öskra á verkalýðshreyfinguna og kenna henni um verðbólguna á sama tíma og það blasir við hvað keyrir verðbólguna áfram hér landi sem er jú húsnæðisliðurinn eða svokölluð reiknuð húsaleiga. Ég ætla allavega að ekki að fagna fyrr en þetta verður orðið að lögum og komið til framkvæmda enda margoft búið að lofa þessu og ekkert gerist enda hagsmunir fjármálaelítunnar sem hafa komið í veg fyrir þessar breytingar til þessa,“ skrifar Vilhjálmur.