Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að í ljósi sögunnar sé það hálf furðulegt að í rökræðum Bjarna Benediktssonar og Kristrúnar Frostadóttur um Evrópumál í Silfrinu um helgina hafi það verið Bjarni sem var nær sannleikanum en Kristrún þegar hann sagði að Samfylkingin hefði pakkað því stefnumáli sínu að ganga í ESB ofan í kassa.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigmars á Vísi í dag. Sigmar veltir fyrir sér þeim sinnaskiptum sem orðið hafi í Samfylkingunni eftir að Kristrún tók við formennsku síðastliðið haust.
Sigmar segir svar Kristrúnar við spurningu um stefnubreytingu Samfylkingarinnar í Evrópumálum vera áhugavert, en Kristrún sagði:
„Það þýðir ekkert að halda einhverju til streitu sem er kannski ekki vilji fyrir meðal þjóðarinnar. Ef hlutirnir snúast við og það verður knýjandi þörf og vilji hjá landsmönnum til að ganga inn í Evrópusambandið þá mun alls ekki standa á okkur. Við getum ekki keyrt stórt mál eins og þetta í gegn ef það eru einungis tveir stjórnmálaflokkar á þingi sem hafa áhuga á því.“
Sigmar segir að umorða megi þessa hugsun í þekktan frasa: ESB er ekki á dagskrá. Þetta hljómi vissulega kunnuglega, en ekki úr þessari átt, Þessa möntru hafi Sjálfstæðisflokkur og Framsókn kyrjað í áratugi, stundum af trúarlegri innlifun. „Málið er ekki á dagskrá. Handrit frasans og samskonar slagorða er skrifað í Valhöll og lesið yfir og blessað af Kaupfélagi Skagfirðinga og fleiri hagsmunaaðilum sem lifa og hrærast í fákeppnisumhverfi sem þjónar þeirra hagsmunum en ekki hagsmunum almennings,“ skrifar Sigmar.
Hann segir þessi orð Kristrúnar hljóta að valda vonbrigðum því fólki sem hefur trú á því að Evrópusambandið sé leið að því markmiði að á Íslandi ríki meiri stöðugleiki og að verðbólga og vextir séu að jafnaði ekki miklu hærri hér en í nágrannalöndunum. Ekki vegna þess að þau rími við orð valdaflokkanna heldur líka vegna þess að þau séu efnislega röng.
Sigmar bendir á að í skoðanakönnunum sé Samfylkingin nú komin í sama fylgi og hún var fyrir hrun en þá mældist flokkurinn ávallt með meira en 26 prósenta fylgi í kosningum. Þá hafi ESB aðild verið hryggjarstykkið í stefnu flokksins og því sé holur hljómur í fullyrðingum andstæðinga ESB að stefnubreyting flokksins nú sé skýring fylgisaukningarinnar.
Sigmar spyr hversu háir vextir og verðbólga þurfi að verða í landinu til að þjóðin snúi bökum saman og knýi á um viðræður við ESB að undangengnu þjóðaratkvæði.
Sigmar hnykkir út með því að segja það rangt hjá formanni Samfylkingarinnar að ESB sé eingöngu utanríkismál. Sé slík rörsýn á eitt stærsta hagsmunamál fyrirtækja og heimila, sem jafnframt sé lykillinn að meiri samkeppni á íslenskum fákeppnismörkuðum, ráðandi náum við aldrei árangri. ESB sé á dagskrá núna.