Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, beindi spjótum sínum að Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra í Silfrinu á RÚV í dag. Hún gagnrýndi Bjarna fyrir lítið aðhald í ríkisfjármálum. Þegar Bjarni bar sig illa undir þeirri gagnrýni lýsti Þorgerður furðu sig á því að ráðherrann kvartaði undan slíkri gagnrýni.
Eins og Eyjan greindi frá fyrr í dag tókust Bjarni og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi samkvæmt öllum skoðanakönnunum á þessu ári, á í þættinum.
Fleira gerðist þó í þættinum. Má þar nefna að Þorgerður Katrín sagðist telja Samfylkinguna hafa stigið inn í gamalt handrit sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi samið um Evrópumálin. Átti hún þar við að eftir að Kristrún tók við formennsku setti hún Evrópusambandsaðild til hliðar og sagði velferðarmál og lífskjaramál verða í forgrunni.
Þorgerður sagði stærsta lífskjaramálið felast í að komast undan oki íslensku krónunnar sem ógnaði lífskjörum íslensks almennings.
Bjarni sagði stjórnmálabaráttuna síðastliðinn áratug hafa snúist um að berjast gegn því að Ísland gengi í ESB og stjórnarskránni yrði breytt eins og Samfylkingin hafi viljað.
Þorgerður Katrín sagði Pírata og Samfylkinguna hafa staðið í vegi fyrir því að meirihluti Alþingis skildi Sjálfstæðisflokk og Miðflokk eftir og tæki höndum saman um breytingar á stjórnarskrá til dæmis um að setja inn umhverfis- og auðlindaákvæði.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tók þátt í umræðunni í gegnum síma frá Helsinki. Hann gaf lítið fyrir tal Bjarna Benediktssonar um að ríkisstjórnin hefði stóraukið útgjöld til velferðarmála og til að bæta hag hinna verst settu. Sagði Sigmundur að ekki mætti rugla saman útgjöldum og árangri.
Bjarni lagði áherslu á að útgjaldaaukningin hefði verið að sviði velferðarmála og heilbrigðismála, til dæmis hefði ríkisstarfsmönnum fjölgað mikið í tíð þessarar ríkisstjórnar.