fbpx
Laugardagur 16.nóvember 2024
Eyjan

Björn Jón skrifar: Er framtíðin fyrir austan fjall?

Eyjan
Sunnudaginn 21. maí 2023 15:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Árbækur Ferðafélags Íslands eru líklega einhver merkilegasti bókaflokkur sem gefinn hefur verið út hér á landi en bækurnar eru orðnar 96 talsins. Útgáfa árbókarinnar á vordögum er okkur mörgum tilhlökkunarefni en sú nýjasta fjallar um Flóann, milli Ölfusár og Þjórsár. Aðalhöfundar eru Inga Lára Baldvinsdóttir sagnfræðingur, Magnús Karel Hannesson, kennari og fyrrv. oddviti, og Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur.

Flóinn er ekki einasta landbúnaðarhérað heldur er þar risinn fjórði stærsti byggðakjarni landsins á eftir Stór-Reykjavíkursvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Óvíða fjölgar fólki hraðar en í sveitarfélaginu Árborg: undangenginn áratug nemur fólksfjölgun þar hvorki meira né minna en 44%. Á sama tíma fjölgaði Reykvíkingum um 17%.

Áætlanir út í bláinn

Í viðtali sem birtist í Vísbendingu árið 2007 ræddi Jónas H. Haralz, fyrrv. bankastjóri Landsbankans, um helstu hagstjórnarmistök þá nýliðinnar aldar. Hann gerði nýsköpunarstjórnina 1944–1947 að umtalsefni — hún hefði bara verið nafnið tómt, þar hefði engin áætlun verið til staðar. Eina ríkisstjórnin sem haft hefði skipulag á áætlunargerð hafi verið viðreisnarstjórnin sem settist að völdum 1959. Jónas sagði í þessu sambandi sögu sem greinilega hefur verið honum hugstæð því ég minnist þess að hafa heyrt hann rifja hana upp við annað tilefni: Á árum nýsköpunarstjórnarinnar starfaði Jónas fyrir svokallað nýbyggingarráð sem hann sagði aðeins hafa verið skömmtunarskrifstofu — þrátt fyrir að þar hafi ýmis plön verið rædd og uppdrættir hangið á veggjum. Í reynd hafi þetta verið allt út í bláinn. Grípum niður í frásögn Jónasar:

„Einar Olgeirsson [form. nýbyggingarráðs] gerði okkur þátttakendur í draumsýn sinni. Það var á sunnudegi og hann tók starfsmennina austur fyrir fjall og hann var mjög mikið á móti uppbyggingu Selfoss og Hveragerðis, sem voru þá sjálfsprottnir þéttbýliskjarnar að vaxa úr grasi og taldi að þetta ætti að vera eitt sveitarfélag, ætti að vera á einum stað mitt á milli Selfoss og Hveragerðis. Hann fór með okkur upp á hæð þarna við Kotströnd, þar er hóll vinstra megin við veginn á leið austur, og benti: „Hérna á bærinn að vera.“ Einar hafði engan skilning á kringumstæðunum. Hann hafði sáralítinn veruleikasans.“

Þéttbýli hafði sprottið upp í Hveragerði vegna nýtingar jarðhitans og á Selfossi vegna Ölfusárbrúarinnar og þjónustustarfsemi sem reis í kjölfar stórbættra samgangna um hérað sem áður hafði verið háð margvíslegum farartálmum. Illa ígrunduð skipulagshyggja hefur leitt menn í gönur, um það má finna ótal dæmi á tuttugustu öld en það breytir því ekki að öflugustu iðnríki okkar samtíma hafa byggt á ítarlegri áætlanagerð til langs tíma, jafnt í efnahagsmálum sem skipulagi byggðar. Öflugt einkaframtak fær illa þrifist nema umgjörð þjóðfélagsins sé skýr og stöðugleiki ríki.

Alltof fáir stjórnmálamenn hér á landi horfa til langs tíma. Framtíðin er lítt til umfjöllunar í pólitískri umræðu. Ef stjórnmálamenn yrðu spurðir hvernig þeir sjái fyrir sér þróun mála á komandi áratugum er ég hræddur um að svörin yrði í flestum tilfellum rýr. Nú blasir til að mynda við mikil fólksfjölgun og leita þarf svara við því hvar heppilegast sé að byggð vaxi helst til framtíðar.

Borgarlínan kemur aldrei

Flóinn og sér í lagi nágrenni Selfoss er á margan hátt afar hentugt landsvæði fyrir fjölmenna byggð. Þó ekki væri nema fyrir þá sök að allt umhverfi er marflatt og vaxtarmöguleikar miklir í allar áttir. Reykjavík byggðist aftur á móti vestarlega á nesi. Eftir því sem borgin stækkaði færðist þungamiðjan eðli máls samkvæmt í austurátt og nágrannasveitarfélög hafa stækkað hratt í suðri svo orðin er samfelld en gisin byggð að Straumsvík. Skortur á heildarhugsun í skipulagi þessa svæðis hefur gert það að verkum að illa hefur gengið að skipuleggja skilvirkt strætisvagnakerfi svo dæmi sé tekið. Nú er á teikniborðinu nýtt vagnakerfi sem kallað er borgarlína en einn okkar helsti umferðarverkfræðingur, Þórarinn Hjaltason, hefur sýnt fram á að eftir fyrsta áfanga þeirrar framkvæmdar muni umferðartafir stóraukast. Betur sé heima setið en af stað farið. Áætlaður kostnaður er líka svo yfirgengilegur að ólíklegt má telja að þessi framkvæmd líti nokkurn tímann dagsins ljós. Hjá skrifstofum verkefnisins, Betri samgöngum ohf., virðist ríkja ámóta „veruleikasans“ og hjá nýbyggingarráði forðum daga.

Selfoss og næsta nágrenni býður aftur upp á mikla möguleika á að reisa borg með virku almenningsvagnakerfi en í nýjustu árbók Ferðafélagsins er vitnað til skrifa um þetta efni þar sem bent er á hversu hagfellt er að ferðast um Selfoss á reiðhjóli eða fótgangandi enda landið allt marflatt. Þarna mætti reisa borg nánast frá grunni með skilvirkum strætisvagnaleiðum og göngu- og hjólastígum sem tengdust í öflugri samgöngumiðstöð sem yrði miðdepill byggðarinnar — líkt og brautarstöðvar eru í flestum borgum meginlandsins.

Framtíðarsýn skortir

Með nýjum skipulagslögum 1997 var ábyrgð á gerð skipulags að verulegu leyti flutt frá ríki til sveitarfélaga. Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur, hefur ítrekað í ræðu og riti bent á að afturför hafi orðið í kjölfar þessa. Vald í skipulagsmálum hafi í mörgum tilfellum verið fært til embættismanna sem ekki hafi haft til að bera nauðsynlega menntun og þekkingu. Afleiðinga þessa sjáist í ítrekuðum illdeilum vegna skipulags þar sem við blasi að um er að kenna þekkingarleysi þeirra sem með málaflokkinn fara.

Fyrir flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga hafa verið færð rök er lúta að valddreifingu en slíkar röksemdir vega ekki þungt þegar horft er til þess að sveitarfélögin eru mörg hver (og kannski flest) of veikburða til að sinna þeim málaflokkum sem þeim eru falin. Mér er mjög til efs að flutningur grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga hafi verið heillaskref og að sama skapi athugandi að ríkið færi á nýjan leik með skipulagsvaldið í megindráttum.

Þau margvíslegu skipulagsmistök sem gerð hafa verið á umliðnum áratugum vekja ugg. Hvar sjá menn fyrir sér að byggð vaxi og hvernig verður henni háttað? Mun rísa fyrirmyndarborg í Flóanum eða mun byggðin þar vaxa tilviljanakennt og án heildarhugsunar? Varla er til of mikils mælst að ráðamenn þjóðarinnar vinni að skýrri framtíðarsýn um þróun byggðar.

Borgin í Flóanum

Þeirri miklu fólksfjölgun sem nú á sér stað á Selfossi fylgir vöxtur í hvers kyns þjónustu og verslun, fleiri sjá sér hag í að reka þar atvinnustarfsemi og þannig laðar byggðin að sér fleira fólk — fjölgun íbúa gæti jafnvel orðið mun hraðari á komandi áratugum. En svo vel takist til þarf að huga að vönduðu skipulagi og skipulag þarf almennt að hugsa í stærra samhengi en gert hefur verið. Við sjáum að byggðastefna umliðinna áratuga hefur vart verið annað en tilviljanakennt fálm í opinberri fjárfestingu í stað þess að einblínt hafi verið á fáa öfluga byggðakjarna. Flóinn er líklega eitthvert besta borgarstæði landsins, landið flatt, vítt til allra átta og Selfoss á meira að segja sína eigin „hafnarborg“ í Þorlákshöfn. Fyrir austan fjall liggja miklir framtíðarmöguleikar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir örgustu öfugmæli

Orðið á götunni: Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir örgustu öfugmæli
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Inga Sæland: Ekki kjörin til að bjarga heiminum – björgum Íslendingum fyrst

Inga Sæland: Ekki kjörin til að bjarga heiminum – björgum Íslendingum fyrst
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 3 um ESB/evru: Noregur vill inn – Tyrkir hafa hangið á húninum frá 1987!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 3 um ESB/evru: Noregur vill inn – Tyrkir hafa hangið á húninum frá 1987!