Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sendir stjórnendum borgarinnar sneið í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar líkir hún fjárhagslegri hnignun borgarinnar við fall Nokia úr sessi sem leiðandi aðila á farsímamarkaðnum. Áslaug skrifar:
„Það hafa verið skrifaðar margar lærðar greinar um það hvernig Nokia varð undir og fyrir því eru fjölmargar ástæður. Ein af þeim sem vega þar þungt er viðhorf stjórnenda félagsins til framþróunar og væntinga neytenda. Með einföldum hætti má segja að stjórnendur Nokia töldu sig vita betur en almenningur hvaða síma ætti að nota og hvernig.“
Áslaug segir að þetta viðhorf og þessa þróun mála megi yfirfæra á Reykjavíkurborg, sem hafi einu sinni verið vel rekin og öflug borg þar sem eftirsótt var að búa. „Fröken Reykjavík var áður drottning en er núna blönk og hefur ekki burði til að þjónusta íbúa sína með fullnægjandi hætti,“ segir ráðherrann.
Segir Áslaug að varnaðarorðum sínum til stjórnenda borgarinnar hafi verið mætt með skætingi og útúrsnúningum:
„Í grein sem ég skrifaði í febrúar 2021 sagði ég að ef Reykjavíkurborg væri heimilisbókhald væri rekstur heimilisins í járnum og yfirdrátturinn fullnýttur þrátt fyrir að heimilismenn hefðu fengið launahækkanir síðustu ár. Greinin vakti litla kátínu meðal meirihlutans sem svaraði með hefðbundnum hætti; skætingi og útúrsnúningum. Síðan þá hefur fjárhagsstaðan bara versnað og yfirdrátturinn er kominn í hámark. Ólíkt heimilisbókhaldinu hleypur þessi yfirdráttur þó á milljörðum.“
Áslaug segir að fjárhagsvandræði borgarinnar stafi af því að vinstri meirihlutinn hafi lagt meiri áherslu á eigin hugðarefni en þjónustu við íbúa. „Þegar foreldrar barna í mygluðum skóla láta í sér heyra yppa borgarfulltrúar öxlum og þegar fólk lokast inni vegna snjókomu er bent á að þjónustuhandbók um vetrarþjónustu sé í endurskoðun. Þá er ótalinn leikskólavandinn, skortur á viðhaldi og umhirðu, sístækkandi yfirstjórn og önnur atriði sem ýmist skýrast af bágri fjárhagsstöðu eða skorti á vilja borgaryfirvalda til að þjónusta íbúa.“
Áslaug segir að stjórnendur borgarinnar verði að átta sig á því að borgin er til fyrir fólkið en ekki öfugt.