Rekstur Loðnuvinnslunnar skilaði methagnaði í fyrra, 3,5 milljarðar, og var árið langbesta rekstrarár í sögu fyrirtækisins. Aðalfundur félagsins fór fram 12. maí síðastliðinn en í tilkynningu frá félaginu koma fram helstu niðurstöðutölur rekstrarins:
Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta árið 2022 var 3.483 milljarðar króna á móti 1.247 milljörðum árið 2021.
Tekjur LVF voru 18.180 milljarðar sem er 45% aukning frá fyrra ári.
Tekjur að frádregnum eigin afla voru 14.039 milljarðar.
Veltufé frá rekstri var 4.502 milljarðar á móti 1.572 milljörðum árið 2021.
Eigið fé félagsins í árslok 2022 14.895 milljarðar sem er 54% af niðurstöðu efnahagsreiknings.
Stærsti hluthafi LVF er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut. Á aðalfundi Loðnuvinnslunnar var ákveðið að greiða 20% arð til hluthafa sem gera 140 milljónir. Framkvæmdastjóri Loðnuvinnsluar er Friðrik Mar Guðmundsson, kaupfélagsstjóri, en í apríl mánuði var greint frá því að hann hygðist hætta störfum hjá fyrirtækjunum í haust.
Loðnuvinnslan er að mestu leyti í eigu kaupfélagsins og eru 350 af 750 íbúum Fáskrúðsfjarðar meðlimir í kaupfélaginu. Með því er reynt að taka allar ákvarðanir um starfsemi Loðnuvinnslunnar með það fyrir augum að þær gagnist heimabyggð og eignarhaldið gerir það nær ómögulegt að selja fiskveiðiheimildir í hagnaðarskyni frá byggðarlaginu.
Á aðalfundum Loðnuvinnslunnar og Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga útdeildu fyrirtækin styrkjum til hinna ýmsu málefna til eflingar samfélagsins í Fáskrúðsfirði. Að samanlögðu eru styrkirnir sem Loðnuvinnslan hf. og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga veittu að þessu sinni 32,6 milljónir króna.