Samherji hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að athygli fyrirtækisins hafi verið vakin á því að svo virðist sem óprúttnir aðilar hafi sent falsaða fréttatilkynningu í nafni Samherja til erlendra fjölmiðla. Þá virðist sömu aðilar hafa sett upp falska heimasíðu í nafni fyrirtækisins sem hýst sé í Bretlandi og samhliða dreift fölsuðum auglýsingaborðum.
Í tilkynningunni er tekið fram að hvorki heimasíðan né fréttatilkynningin hafa nein tengsl við Samherja eða starfsmenn fyrirtækisins. Svo virðist sem um sé að ræða skipulagða árás sem fyrirtækið tekur mjög alvarlega. Samherji mun óska eftir því að hin falska vefsíða verði tekin niður.
Á hinni fölsuðu heimasíðu er fölsuð tilkynning frá Samherja með undirskrift einstaklings sem ekki starfar hjá samherja. Efni fölsuðu tilkynningarinnar snýr að því að Samherji biðjist afsökunar á atvikum sem tengjast hinu svonefnda Namibíumáli og heitir fullu samstarfi við namibísk stjórnvöld.
Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja, tjáði Eyjunni í morgun að fyrirtækinu hefðu borist upplýsingar um síðuna og tilkynninguna nú í morgun. Augljóslega væri talsverð vinna og fagþekking að baki hennar þar sem birtar eru meðal Annars upplýsingar um flota fyrirtækisins og framleiðslu, auk þess sem hægt sé að sækja þar um störf.
Hér er hægt að sjá hina fölsuðu síðu og tilkynningu og áréttað er að þetta er alls ekki á vegum Samherja. Samherji hefur aldrei verið með síðu á slóðinni samherji.co.uk.