fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Sögulegur fjöldi einkaþotna á Reykjavíkurflugvelli veldur pirringi – „Auðvelt að hneykslast á þessu“

Eyjan
Miðvikudaginn 3. maí 2023 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttastofa RÚV greindi frá því í dag að reiknað sé með óvenjumiklu álagi á Reykjavíkurflugvelli þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins fer fram í Reykjavík, en talið er að um 50 einkaþotur verði á vellinum. Aldrei hafi annars eins fjöldi einkaþota verið á Reykjavíkurvelli sem verður í smá hvíld þar sem allt annað einkaflug mun liggja niðri á þessum tíma.

Í framhaldi var greint frá því að framkvæmdastjóri Landverndar, Auður Önnu Magnusdóttir, segði það algjörlega út í hött að fólk skuli leyfa sér að koma hingað til lands á einkaþotum í opinberum erindagjörðum þar sem ótal flugferðir séu í boði frá öllum borgum Evrópu.

Fleiri hafa vakið athygli á málinu og þykir ljóst að ekki sé þarna um umhverfisvænan viðburð að ræða.

Egill Helgason, fjölmiðlamaður, segir auðvelt að hneykslast á þessu máli. En þó þurfi að huga að samhenginu, enda betra að leiðtogar heimsins hittist til að ræða málin frekar en að gera það ekki. Eins sé erfitt að sjá fyrir sér að þessir aðilar fljúgi með áætlunarflugi.

„Það er vissulega auðvelt að hneykslast á þessu. En svo má aðeins pæla – heimur þar sem þjóðarleiðtogar ferðast langvegu til að ræða málin er væntanlega betri en heimur þar þeir hittast ekki. Svo er erfitt að hugsa sér leiðtoga stórra þjóða ferðast í áætlunarflugi. Af því myndi hljótast mikil röskun, tímasóun, auk þess sem slíkir leiðtogar þurfa alltaf að geta verið í sambandi við stöðvar á jörðu niðri. Að því sögðu er fjölgun einkaþota í heiminum fáránleg – sem og hin ódýra og mikla fyrirgreiðsla sem þær fá á Reykjavíkurflugvelli.“

Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum, upplýsir þó í athugasemd að António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ferðist að jafnaði með áætlunarflugi.

Rithöfundurinn Halldór Armand bendir á kaldhæðnina sem í því felst að milljörðum sé mokað í að loka höfuðborginni fyrir íbúum svo að 50 einkaþotur geti mætt á fund. Á meðan sitji Reykvíkingar heima að flokka og halda í sér prumpi.

Rithöfundurinn Hildur Knútsdóttir telur að hreinlega eigi að banna einkaþotur.

Aðrir hafa bent á að þarna hefði verið kjörið tækifæri fyrir leiðtoga heimsins til að vera í samfloti.

Enn aðrir hafa bent á að líklega hefði þjóðin átt að fá að kjósa um hvort halda ætti fundinn hér til að byrja með þar sem verðbólga sé í landinu og ekkert bendi til þess að fundurinn muni gagnast Íslandi nokkuð.

Berglind Pétursdóttir, sjónvarpskona, vill líka fá jakkaföt og lúxusbíl fyrir fundinn. En nýlega var greint fra því að íslenskir lögreglumenn verði prúðbúnir og vopnaðir á meðan á fundinum stendur og verði þar að auki leyniskyttur að störfum. Alls hafi verið keypt 250 svört jakkaföt fyrir lögreglumennina og sé reiknað með að allir lögreglumenn landsins komi að fundinum með einum eða öðrum hætti. Hingað til lands hafi eins tugir glæsibílar verið sérpantaðir vegna fundarins til að ferja þjóðarleiðtoga og aðra ráðamenn.

Bergþór Ólason, þingmaður, lagði fram fyrirspurn á Alþingi í lok apríl um áætlaðan heildarkostnað ríkissjóðs og annarra opinbera aðila vegna leiðtogafundarins, sem haldinn verður í Reykjavík 16-17. maí og eins hvernig kostnaðurinn skiptist milli opinberra aðila og á milli verkþátta. Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, verkefnisstjóri alþjóðamála hjá forsætisráðuneytinu sagði þó í samtali við mbl.is í síðustu viku að kostnaðurinn slagi upp í tvo milljarða samkvæmt öllu bókhaldi, en lokatölur muni ekki liggja fyrir fyrr en að fundinum afstöðnum. Stærsti kostnaðarliðurinn sé öryggisgæslan. Aðildarríkin greiði sjálf ferðakostnað og kostnað af sinni eigin einkaöryggisgæslu. Eins dekki þau kostnað við uppihald og gistingu á meðan á fundinum stendur. Evrópuráðið fjármagni svo túlkaþjónustu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu