Átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um endurnýjun vegarins yfir Kjöl með einkaframkvæmd.
Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
„Með heilsársvegi yfir Kjöl er mögulegt að stytta til muna leiðina landshorna á milli og auðvelda þannig ferðir á milli Suður- og Norðurlands og opna fyrir möguleika á þróun nýrra ferðamannaleiða,“ segir í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum vegna málsins.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að tillagan geri ráð fyrir að vegurinn yfir Kjöl verði endurnýjaður þannig hægt verði að halda honum opnum stórum hluta ársins, en ráðgert er að verkefnið verði unnið sem einkaframkvæmd.
Segir í greinargerð að við undirbúning að endurnýjun vegarins sé mikilvægt að allir fletir málsins verði vel greindir, þ.m.t. hvernig best væri að standa að fjármögnun verksins og hvort skynsamlegt væri að líta til fyrirkomulagsins við gerð Hvalfjarðarganga með aðkomu Spalar hf. sem fyrirmyndar fyrir verkefnið.
„Við þekkjum að það er fátt sem styrkir byggðirnar jafn mikið og bættar samgöngur. Það er stórt og mikið mál innan ferðaþjónustunnar að skapa forsendur fyrir betri dreifingu erlendra ferðamanna um allt land. Allt Ísland, allt árið. Mjög stór hluti allra ferðamanna sem sækja Ísland heim leigja sér bílaleigubíl og keyra um á eigin vegum. Ég er fullviss um að uppbygging Kjalvegar er mikið framfaramál sem myndi styrkja byggðirnar bæði norðan og sunnan heiða,“ segir Njáll Trausti.
Aðrir flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru Óli Björn Kárason, Birgir Þórarinsson, Haraldur Benediktsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Vilhjálmur Árnason, Guðrún Hafsteinsdóttir.