Finnbjörn Hermannsson verður kjörinn forseti ASÍ á framhaldsþingi sambandsins á fimmtudag og föstudag í næstu viku. Hringbraut.is greinir frá þessu.
„Sem kunnugt er leystist 45. þing ASÍ upp er það var haldið síðastliðið haust og ekki tókst að kjósa sambandinu nýjan forseta. Ragnar Þór Ingólfsson, sem talið hafði verið nær öruggt að yrði kosinn forseti á þinginu, dró framboð sitt til baka og gripið var til þess ráðs að fresta þinginu til vors og að Kristján Þórður Snæbjarnarson, sem verið hafði starfandi forseti frá því að Drífa Snædal sagði óvænt af sér í fyrra, sæti til vors,“ segir í frétt Hringbrautar.
Þar er farið yfir væringar innan verkalýðshreyfingarinnar og sagt að nú hafi myndast samstaða um Finnbjörn sem forseta sambandsins næstu tvö árin.
Finnbjörn hefur verið formaður Byggiðnar í 26 ár og hugðist stíga til hliðar á aðalfundi á næstunni.