Símon Orri Sævarsson hefur verið ráðinn til Bílaumboðsins Öskju. Símon mun gegna starfi sölustjóra smart og Mercedes Benz sendibíla. Bílaframleiðandinn smart býður upp á rafknúna bíla í hæsta gæðaflokki og er nýjasta viðbótin í vöruframboð Öskju. Kemur þetta fram í tilkynningu.
Símon starfaði hjá Heklu frá árinu 2013 áður en hann færði sig yfir til Öskju. Hann sinnti þar ýmsum störfum en nú síðast starfi vöru- og verkefnastjóra á sölusviði. Þar á undan var hann viðskiptastjóri fyrirtækjasölu. Símon er með Meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur verið viðloðandi bílasölu frá barnsaldri.
Bílaumboðið Askja og bílaframleiðandinn smart hófu samstarf haustið 2021. Mercedes-Benz og Geely, einn stærsti bílaframleiðandi Kína, eru í samstarfi í þróun og framleiðslu þessar nýju bíla sem senn munu sjást á götum landsins. Félögin eiga sitthvor 50% hlutdeildina í smart og markmiðið er að ná fram því besta frá hvorum heimi. Þannig leggur Mercedes-Benz til hönnun að innan og utan en Geely leggur til framleiðsluþekkingu og verksmiðjur. smart er meðal annars með 5 stjörnur í Euro NCAP og var það einn besti árangur rafbíla í árekstrarprófunum. Sala á smart bílum mun hefjast á næstu vikum og koma fyrstu bílar til landsins síðar á árinu.
Mercedes-Benz er stærsti framleiðandi atvinnubíla í heiminum og njóta þeir vinsælda hér á landi eins og víða um heim. Askja býður upp á mikið úrval Mercedes-Benz atvinnubíla af öllum stærðum og gerðum og hefur fjölgað mjög að undanförnu rafknúnum atvinnubílum í flotanum.