Astma- og ofnæmisfélag Íslands leggst eindregið gegn því að lögum um fjöleignarhús verði breytt þannig að rýmkað verði fyrir hunda- og kattahaldi íbúa. Yrði það gert segir félagið að verið væri að taka gæludýr fram yfir frumréttindi fólks.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, leggur fram um breytingar á lögum um fjöleignarhús ásamt sex öðrum þingmönnum Flokks Fólksins og Pírata. Þetta er í annað skiptið sem Inga leggur frumvarpið fram en eins og áður segir snýst það um að rýmka verulega fyrir hunda- og kattahaldi í fjöleignahúsum.
Í dag þurfa gæludýraeigendur að fá samþykki 2/3 íbúðareiganda til að fá að halda dýr í fjöleignarhúsum. Frumvarp Ingu gerir dýrahaldið hins vegar heimilt en húsfélög gætu sett sér sérstakar reglur um gæludýrahald á húsfundum, með samþykki allra íbúa. Aðeins væri hægt að banna dýrahald með samþykki 2/3 hluta íbúa, í einstökum tilvikum. Það er „ef það veldur öðrum íbúum verulegum ama, ónæði og truflunum og eigandi dýrsins neitar að gera bót þar á,“ eins og segir í frumvarpinu.
Ljóst er að margir eru á sömu skoðun og Inga um að mikla réttarbót sé að ræða en á rafrænum undirskriftarlista til stuðnings frumvarpinu sem stofnaður var í byrjun apríl hafa ríflega 9.000 manns skráð nafn sitt.
Í þeim hópi eru þó ekki meðlimir Astma- og ofnæmisfélags Íslands eins og glögglega má lesa í umsögn félagsins um frumvarpið sem birt var á vef Alþingis í morgun.
„Með frumvarpinu um eru frumréttindi fólks tekin úr öndvegi og sett í annað sætið á eftir gæludýrum. Það felur í sér algjöran hugsanafeil og skerðir réttindi fólks með ofnæmi og fólks sem hræðist hunda og ketti,“ segir í umsögninni sem formaður AO, Fríða Rún Þórðardóttir skrifar undir.
Spyr Fríða Rún meðal annars hvað fjölskyldur eigi til bragðs að taka ef einhver meðlimur hennar glímir við ofnæmi gagnvart dýrunum. „Flytja í einbýli, flytja í húsnæði með sérinngangi, sem ekki er nú auðvelt þessa dagana vegna skorts á húsnæði t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Hvað með börn sem fjölskyldunni tilheyra eiga þau að rífa sig upp og hoppa inn í næsta skóla og skólasamfélag. Hvað með tómstundir þessara barna og aðgengi þeirra að þeim?“ spyr Fríða Rún.
Svarið er að finna í greinargerð með frumvarpinu en þar er sérstaklega tekið fram að ef fólk er með svo mikið ofnæmi eða fælni gagnvart dýrum þá geti það einfaldlega flutt í íbúð með sérinngangi í stað þess að girt sé fyrir frelsi annarra til gæludýrshalds.