Nýlega réð Seðlabanki Íslands Tinnu Hallgrímsdóttur, fráfarandi formann Ungra umhverfissinna, í starf loftslags- og sjálfbærnisérfræðings. Seðlabankinn segir ráðninguna vera tímabundna en Tinna fær 950 þúsund krónur í mánaðarlaun.
Ráðningin hefur vakið nokkra gagnrýni, meðal annars hjá Stefáni Einari Stefánssyni, viðskiptablaðamanni hjá Morgunblaðinu, sem segir að þessi ráðstöfun stingi í stúf við þann málflutning Seðlabankans að ríkissjóður og almenningur þurfi að rifa seglin til að draga úr spennu í hagkerfinu. Stefán spyr hvort einhver ástæða sé til að taka mark á Seðlabankanum eftir þessa ráðstöfun. Hann vill vita hvað fólki finnst um þessa ákvörðun. Hann segir á Facebook-síðu sinni:
„Seðlabanki Íslands kallar eftir því að ríkissjóður dragi úr útgjöldum sínum og þar með úr spennu, m.a. á vinnumarkaði. Seðlabankastjóri segir fólk eyða of miklu (af sínu eigin fé) og að fólk þurfi að rifa seglin.
Svo snýr hann sér við og ræður til bankans sérfræðing í sjálfbærnimálum sem á að taka þau málefni fyrir hönd stofnunarinnar föstum tökum (Seðlabankinn hefur engu hlutverki að gegna þegar kemur að sjálfbærni eða umhverfisvernd).
Í starfið er ráðinn einstaklingur, tímabundið en án auglýsingar, nýútskrifaður einstaklingur með sérþekkingu á efninu. Launakjörin. 950 þúsund krónur á mánuði. Kostnaður bankans er því um 1.150 þúsund á mánuði eða tæpar 14 milljónir næsta árið.
Hvað finnst fólki um þetta? Í fyrsta lagi öllu fólki á almennum vinnumarkaði sem ekki fær milljón á mánuði strax að námi loknu? Eða bara fólkinu sem borgar alla þessa skatta, bæði af launum og vöru og þjónustu? Hvað finnst fyrirtækjaeigendunum sem skapa störfin í landinu og stýra fyrirtækjunum sem skapa verðmætin í samfélaginu?
Hefur fólk einhverja ástæðu til að taka mark á Seðlabanka Íslands, sem gengur fram með þessum hætti?“