Halldór Benjamín Þorbergsson, verðandi forstjóri fasteignafélagsins Regins, keypti í dag hlutabréf í félaginu fyrir 203,2 milljónir króna. Kaupin eru gerð í gegnum félag Halldórs, Optio ehf. Kemur þetta fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Halldór Benjamín keypti 8 milljónir hluta, um 0,44% eignarhlut í Regin, með framvirkum samningi á genginu 25,4 krónur á hlut. Bréf Regins hækkuðu um 3,2% á föstudaginn, en tilkynnt var um forstjóraskiptin eftir lokun markaða á fimmtudaginn.
Halldór Benjamín var áður framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), en í tilkynningu frá SA 30. mars kom fram að hann hefði ákveðið að láta af störfum. Stuttu síðar var tilkynnt um ráðningu hans sem forstjóri Regins og mun hann hefja störf sem forstjóri fyrri hluta sumars. Helgi S. Gunnarsson lætur af störfum á sama tíma, en mun verða Halldóri innan handar fyrst um sinn. Helgi hefur gegnt starfi forstjóra Regins frá stofnun félagsins árið 2009.