Samtök atvinnulífsins (SA) benda á að einstaka atvinnurekendur og starfsfólk sem verkbann beinist að hafi ekki val, frekar en í tilviki verkfalla, um það hvort hlíta skuli lögmætu verkbanni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA.
„Fullyrðingar formanns Eflingar um að þátttaka í vinnustöðvunum sé valkvæð og án stuðnings í lögum eru rangar.“
Svo segir í tilkynningu sem ber titilinn „Árétting: Þátttaka fyrirtækja í verkbanni ekki valkvæð“
Slíkt væri brot gegn vinnulöggjöfunni.
„Túlkun Eflingar sem birtist á vef stéttarfélagsins 20. febrúar um að valkvætt sé að hlíta verkbanni og þar með verkfalli stenst því ekki skoðun og felur í sér þrýsting til brota á vinnulöggjöfinni.
Þegar um verkbann er að ræða má enginn sem starfar eftir kjarasamningum SA og Eflingar mæta til vinnu nema að fenginni undanþágu frá framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins. Launagreiðslur falla niður yfir tímabilið sem verkbann stendur yfir líkt og í tilviki verkfalla.“
Í tilkynningu er vísað til tilkynningar sem Efling birti á vefsíðu sinni þar sem segir að verkbann sé einhliða þvingunaraðgerð sem atvinnurekandi kjósi að beita. Kjósi atvinnurekandi að beita verkbanni gegn starfsfólki sínu sé það alfarið á hans ábyrgð. Hvatti Efling félagsfólk til að óska eftir afstöðu síns atvinnurekanda til þess hvort hann muni beita verkbanni.
SA segir að viðræður hafi til þessa engan árangur borið og sé samningsvonin veik. Fyrirséð sé að verkföll Eflingar muni halda áfram og valda miklum samfélagslegum skaða og lama allt samfélagið á næstu dögum. Í ljósi þess hafi SA gripið til þess að boða verkbann sem hafi verið samþykkt með tæplega 95 prósent atkvæða sem staðfesti vilja og einurð breiðs hóps atvinnurekenda af öllum stærðum þvert á atvinnugreinar.