Doktor Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar er gestur Einars Bárðarsonar í nýjasta þættinum af Einmitt. Auður tók við starfinu um mitt ár 2018 þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson fyrirrennari hennar var gerður að ráðherra VG í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Þau Einar ræða laxeldi í sjó og á landi, þau ræða yfirvofandi vindmylluvæðingu landsins og ákvörðunartökuna sem Landvernd berst fyrir að sé á forsendum náttúrunnar og verndar á henni.
Telur engar líkur á því að fara aftur á COP ráðstefnu
Aðspurð að þvi á hvaða vegferð hin árlega Cop ráðstefna er og hvað henni finnst um ákvörðun skipuleggjenda hennar að halda hana í arabísku furstadæmunum næst eftir illa skipulagða Cop27 í Egyptalandi segir hún: „Ég ætla ekki að svara fyrir þetta, mér finnst þetta algjörlega galin ákvörðun. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á Cop og ég geri ekki ráð fyrir að fara aftur.“ Hún segist ekki vera á móti því að fólk ferðist til að ræða málin og bera saman bækur sínar en ráðstefnan hafi verið alltof stór og greinilegt að sóknarlið hagsmunagæslunnar sé búið að festa klærnar í þennan vettvang.
Kjósendur umhverfisverndar eru landlausir í pólitík
Auður segir að umhverfisverndarsinnar séu munaðarlausir í dag eftir að tilraun Vinstri grænna til að toga Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn nær sér í umhverfissmálum hafi mistekist. Forsendur fyrra stjórnarsamstarfs þessara flokka á árunum 2018 til 2021. Flokkarnir fóru mjög vel að af stað og gerðu einn mesta umhverfissinna landsins að umhverfisráðherra, en hálendisþjóðgarður og alvöru aðgerðir í loftslagsmálum hafi að engu orðið. Það hafi verið svik Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins við VG. „Þolinmæði þeirra sem kusu Vinstri Græn út af umhverfismálum er þrotin eftir að VG ákvað þrátt fyrir þetta að endurnýja þessa stjórn eftir síðustu kosningar.“
Grænþvottur í sinni tærustu mynd
Talið berst að Umhverfisverðlaunum atvinnulífsins sem afhent voru í haust en Norðurál fékk viðurkenningu sem Umhverfisfyrirtæki ársins 2022 og vakti umtal. „Þetta er algjörlega óskiljanleg ákvörðun og þetta er grænþvottur í sinni tærustu mynd,“ segir Auður um ákvörðunina, sem var sögð tekin á forsendum þess að Norðurál ætlaði að draga saman losun um 40% í þeim hluta starfseminnar sem tengist ekki álframleiðslu. „Auðvitað verður fólk ringlað. Þarna er fyrirtæki sem notar um 25% af allri raforku sem framleidd er á Íslandi og er ábyrgt á 10% af allri losun á Íslandi að utan landnýtingu.“
Hugverkaiðnaðurinn við það að taka fram úr álframleiðslu
Þegar framtíð álvera á Íslandi var hvað mest rædd síðast hér á landi kom það fram að útflutningsverðmæti áls frá Íslandi væri um 200 milljarðar á meðan að vaxandi hugverkaiðnaður skilaði sama ár 139 milljarðar. „Álverin nota 65% af allri raforku sem við framleiðum á landinu og við fáum mjög lítið fyrir það og það er mjög slæm nýting á orku.“
Þetta þurfi að vega og meta út frá þörfum samfélagsins og um það sé ekki sátt í dag ef hún var það nokkurn tíma.
Samtalið er í senn upplýsandi og afslappað og Auður nær að draga upp nokkuð skýra mynd af því hvernig varnarbarátta íslenskrar náttúru lítur út þaðan sem hún situr, í stafni elstu og stærstu náttúruverndarsamtaka Íslands.