Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir skattahækkanir stjórnvalda hafa valdið því að 53% af verðbólguhækkun janúarmánaðar sé á ábyrgð stjórnvalda.
„Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að aðgerðir stjórnvalda hvað skattahækkanir varðar, varð þess valdandi að 53% af verðbólguhækkuninni í janúar er á ábyrgð stjórnvalda. Neysluvísitalan hækkaði um 0,85% milli mánaða og 0,45% af 0,85% er vegna skattahækkana stjórnvalda eða eins og áður sagði 53% af hækkun á neysluvísitölunni milli mánaða,“ segir Vilhjálmur í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Stjórnvöld hafa öskrað á okkur í verkalýðshreyfingunni um að allir verði að leggja sig fram við að ná niður verðbólgunni, en koma svo fram með skattahækkanir sem hækka verðbólguna um 0,45% á milli mánaða. Er þetta trúverðugur málflutningur stjórnvalda?“
Vilhjálmur segir að skattahækkanirnar, sem hafi 0,45% áhrif á neysluvísitöluna, muni leiða til þess að verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna munu hækka um 7,2 milljarða á milli mánaða. „Já skattahækkanir stjórnvalda hækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána um 7,2 milljarða á einum mánuði. Þetta er svo gjörsamlega galið!“
Vilhjálmur segir margt benda til að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti og nota það sem rök að verðbólgan sé enn á uppleið. Segir hann ábyrgðina eigi að síður vera stjórnvalda eins og samantekt hagdeildar ASÍ sýnir og sannar.