CNN hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni að hluti skjalanna hafi verið leynilegar upplýsingar um Úkraínu, Íran og Bretland. Einnig voru upplýsingar um útför sonar Biden meðal skjalanna sem og samúðarbréf.
Skjölin fundust í læstum skáp á skrifstofunni. Þau voru í kassa með fleiri skjölum sem ekki voru flokkuð sem leyniskjöl. Lögmenn Biden fundu skjölin þann 2. nóvember og afhentu þjóðskjalasafninu þau samdægurs.
Alríkislögreglan FBI og dómsmálaráðuneytið rannsaka nú hvernig skjölin enduðu á skrifstofu Biden. CNN segir að Merrick Garland, dómsmálaráðherra, íhugi nú hvort hefja eigi formlega rannsókn á málinu þar sem Biden mun þá hafa stöðu grunaðs.
Lögmenn Biden segja að hann starfi með yfirvöldum við rannsókn málsins.