Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og ræðir við Ragnar Hilmarsson, grunnskólakennara, sem sér ekki fyrir endann á bið eftir hnéaðgerð. Læknir sagði honum í febrúar 2021 að biðin gæti orðið ár en hún ætti þó að verða styttri. Eftir ár hafi verið sagt að ekki gæti orðið af aðgerðinni fyrr en í sumar eða haust. Nú sé sagt að það gerist ekki fyrr en einhvern tímann á næsta ári. Hann sagðist hafa fengið þær skýringar að skortur sé á starfsfólki á Landspítalanum.
Hann er kvalinn og þarf stundum að nota spelkur. Hann segist undrast að ríkið vilji ekki greiða fyrir aðgerðir sem þessar hjá Klíníkinni í Reykjavík en þær kosta um 1,2 milljónir. Hins vegar eigi fólk rétt á að fara í aðgerðir erlendis á kostnað Sjúkratrygginga ef það kemst ekki í þær innan þriggja mánaða. Sé kostnaðurinn við þær miklu hærri en hjá Klíníkinni.
Andri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Landspítalans, sagði að nær allir biðlistar hafi lengst í heimsfaraldrinum og ekki hafi gengið nægilega vel að stytta þá. „Þegar verið er að vinna biðlistana niður ræður bráðleiki för. Þá hefur lífsógnandi ástand meiri forgang enn annað,” sagði hann.