Meloni lýsti yfir sigri í nótt að sögn Reuters. Hún sagðist einnig ekki hafa í hyggju að bregðast trausti Ítala. Ef af ríkisstjórnarmyndun verði muni ríkisstjórnin vinna fyrir alla Ítali og hafa að markmiði að sameina þjóðina og leggja áherslu á það sem sameinar hana frekar en það sem sundrar henni.
Flokkur Meloni verður stærsti flokkurinn í væntanlegri ríkisstjórn og Meloni þykir því langlíklegust til að verða forsætisráðherra.
Lýðræðisflokkurinn, sem er jafnaðarmannaflokkur, hefur viðurkennt ósigur í kosningunum og verður nú stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Debora Serracchiani, varaformaður flokksins, sagði að úrslitin séu dapurleg fyrir Ítalíu. „Hægrivængurinn er með meirihluta á þingi en ekki í landinu,“ sagði hún.
Síðustu tölur sýna að bandalag hægriflokka fær um 43% atkvæða og mun ná að tryggja sér meirihluta á þingi. Bræðralag Ítalíu fær 22,5 til 26,5% atkvæða ef miða má við útgönguspár og verður því stærsti flokkurinn. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 4% atkvæða.
Útgönguspár sýna að vinstriflokkarnir fá 25,5 til 29,5% atkvæða. Af þeim fær Lýðræðisflokkurinn um 19% atkvæða.
Meloni hefur háð kosningabaráttu sína undir slagorðinu „Guð, land og fjölskyldan“. Ef henni tekst að mynda ríkisstjórn þá verður það fyrsta hægriríkisstjórn landsins síðan stjórn Benito Mussolini var við völd á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.