Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Friðrik að fjárhagslegur ávinningur af menntun fari sífellt minnkandi og að háskólamenntað fólk hafi setið eftir hvað varðar launaþróun. „Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið því lífskjarasamningarnir voru sniðnir til þess að vera hagfelldir fyrir þá lægstlaunuðu,“ er haft eftir honum.
Hann sagði áhugavert að skoða þróun kaupmáttar fyrri ára. „Ef við skoðum kaupmáttaraukningu undanfarinna ára og horfum til ársins 2015 þegar lögð var áhersla á krónutölusamninga, frá janúar 2015 til janúar 2022 ef við berum saman BHM og BSRB hjá ríkinu, þá hefur kaupmáttarvísitalan fyrir BSRB hækkað um 53 prósent meðan hún hefur hækkað um 36 prósent hjá BHM,“ sagði hann.
Hann sagði ekki ásættanlegt að háskólamenntað fólk hafi setið jafn mikið eftir og raun ber vitni en sagði þó ánægjulegt að markmiðið um leiðréttingu kjara þeirra lægstlaunuðu hafi gengið eftir.
Hann sagði þetta geta haft þær afleiðingar að það dragi úr hvata til að sækja sér menntun og hvetji fólk til að flytja erlendis að námi loknu þar sem menntun sé frekar metin að verðleikum.