Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Forsetar Eystrasaltsríkjanna verða viðstaddir samkomuna auk forseta Íslands og flytja erindi. Það eru Háskóli Íslands og forsetaembættið sem boða til hátíðarsamkomunnar.
Það var á mánudaginn sem Sighvatur Björgvinsson, fyrrum ráðherra og samflokksmaður Jóns Baldvins, komst að því að Jóni var ekki boðið á hátíðarsamkomuna. „Þeir sem hafa undirbúið fundinn hafa vitandi vits haldið Jóni Baldvini frá,“ hefur Fréttablaðið eftir honum.
Sighvatur gerði athugasemd við þetta við forsetaembættið sem sendi þá Jóni boðsbréf, fjórum dögum fyrir samkomuna.
Jón staðfesti að hafa ekki vitað af hátíðarsamkomunni fyrr en hann fékk boðsbréf í tölvupósti seint á mánudaginn. Þar sem hann haldi til á Spáni hafi hann ekki getað þegið boðið með svo skömmum fyrirvara. „Ég skil ekki af hverju menn eru svo lítilsigldir,“ sagði hann.
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.
Uppfært 10:11: Embætti forseta Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins. Þar er því vísað á bug að Jóni Baldvini hafi ekki verið boðið til viðburðarins. Hann hafi, líkt og aðrir ráðherrar ríkisstjórna Íslands á árunum 1988-1995 sem og fyrrverandi sendiherrar og ræðismenn þess tíma, fengið boð á sama degi. Í yfirlýsingu segir: „Auðvelt hefði verið fyrir blaðið að sannreyna þetta með einu símtali. Auk þess er rétt að leiðrétta þá rangfærslu að viðburðurinn fari fram í Háskólabíói. Hið rétta er að hann fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands.
Eins segir að það sé óhætt að fullyrða að enginn annar Íslendingur en Guðni Th. Jóhannesson forseti, hafi vakið eins oft og vel athygli á „atbeina hans [Jóns Baldvins] örlagaárið 1991 þegar íslensk stjórnvöld studdu dyggilega við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna.“