Fréttablaðið hefur eftir Degi að hann hafi skynjað mikinn stuðning: „Fólk hefur kallað eftir nýrri ríkisstjórn sem yrði mynduð frá vinstri yfir á miðjuna svipað og í Reykjavík. En ég er að hefja nýtt kjörtímabil í borginni og á ekki sæti á þingi. Þess vegna var langsótt að ég byði mig fram til formennsku í flokknum.“
Aðspurður hvort það sé útilokað að hann bjóði sig fram til formanns sagði hann svo vera. Hans hlutverk sé frekar að styðja þá sem verða valdir til forystu og sagðist hann telja að það skipti mjög miklu að Samfylkingin nái fyrri styrk.
Þegar Dagur var spurður hvort hann hyggist bjóða sig fram til Alþingis sagðist hann aldrei hafa útilokað það en hafi heldur ekki stefnt sérstaklega að því.
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.
Morgunblaðið skýrir síðan frá því í dag að Kristrún Frostadóttir muni boða stuðningsfólk sitt á fund á morgun og sé talið að þar muni hún kynna framboð sitt til formanns á landsfundinum. Blaðið segist hafa heimildir fyrir að fundur Kristrúnar hefjist klukkan 15 á morgun í Iðnó. Kristrún vildi ekkert segja um málið nema hvað að fundarboð verði sent út á morgun.